KALLAÐ EFTIR EFNI

Ritið 1/2026 Tilbrigði í framburði

Fyrsta hefti Ritsins 2026 verður helgað rannsóknum á framburði íslensks nútímamáls. Á undanförnum árum og áratugum hafa verið gerðar ýmsar rannsóknir á breytileika í framburði, einkum eftir landssvæðum og aldurshópum. Í seinni tíð hefur einnig verið horft í auknum mæli til lífstíðarþróunar í máli einstaklinga, viðhorfa, tónfalls og skynjunar og viðbragða við ólíkum framburði. Kallað er eftir fræðilegum greinum sem fjalla um breytileika og tilbrigði í íslenskum framburði. Umfjöllunin getur verið frá ýmsum sjónarhornum – snúist um svæðisbundin tilbrigði, tónfall, framburðarnýjungar, leifar eldri tilbrigða, erlendan hreim, málfélagslega stöðu einstakra tilbrigða og birtingarmyndir þeirra m.t.t. ólíkra málaðstæðna, viðhorf og alþýðuhugmyndir um framburð o.fl.

Greinum skal skilað fyrir 15. september 2025.

Gestaritstjórar eru Ásgrímur Angantýsson (asgriman@hi.is) og Finnur Friðriksson (finnurf@hi.is), aðalritstjóri er Guðrún Steinþórsdóttir (gudrunst@hi.is).

Ritið 2/2026 Hnattrænn súrrealismi

Aldarafmæli súrrealismans var fagnað á síðastliðnu ári, en hreyfingin hefur reynst sú langlífasta og útbreiddasta af framúrstefnuhreyfingum tuttugustu aldar. Hugmyndir súrrealismans hafa dreifst víðsvegar um heiminn síðan á upphafsdögum hans í París og orðið innblástur fyrir listræna og róttæka starfsemi á ólíkum menningarsvæðum innan Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku, Norður-Afríku, Asíu og Eyjaálfu. Sérheftið „Hnattrænn súrrealismi“ býður upp á vettvang til að rýna í hina ýmsu snertifleti, tengsl og flækjur í sögu alþjóðlegs súrrealisma – allt frá fyrri hluta tuttugustu aldar til dagsins í dag.

Kallað er eftir greinum sem fást við súrrealisma sem hnattrænt fyrirbrigði í sínum margbreytilegu myndum og kanna hlutverk og vægi súrrealismans á ólíkum svæðum eða tengslanet súrrealismans og fjölþjóðlegt samstarf (þ.á m. sýningahald, tímaritaútgáfu, þýðingar eða önnur form samvinnu). Þá er lögð áhersla á þann gagnvirka og umskapandi menningarflutning sem á sér stað innan þverþjóðlegs tengslanets súrrealismans. Leitast er við að hverfa frá hefðbundnum frásagnarlíkönum miðju- og jaðarsvæða og skoða súrrealíska athafnasemi á svæðum sem hafa hingað til ekki verið í brennidepli. Jafnframt er óskað eftir greinum sem snerta á pólitískri vídd súrrealismans á heimsvísu, þ.á m. umfjöllun um alþjóðahyggju súrrealista eða andóf þeirra gegn gerræði og tortímandi útþenslustefnu Vesturlanda. Súrrealistar voru almennt gagnrýnir á heimsmynd og þekkingarkerfi Vesturlanda og mörg verkefni hreyfingarinnar fólu í sér andstöðu gegn þjóðernishyggju, nýlendustefnu, hernaðarbrölti og kapítalisma.

Greinum skal skilað fyrir 15. nóvember 2025.

Gestaritstjórar sérheftisins eru Sólveig Guðmundsdóttir (solgud@hi.is) og Benedikt Hjartarson (benedihj@hi.is), aðalritstjóri er Guðrún Steinþórsdóttir (gudrunst@hi.is).

Ritið 3/2026 Opið hefti

Kallað er eftir greinum á sviði hugvísinda í þriðja hefti Ritsins 2026. Greinum skal skilað fyrir 10. apríl 2026.

Ritstjóri er Guðrún Steinþórsdóttir (gudrunst@hi.is)

Ritið 1/2027 Stílfræði

Fyrsta hefti Ritsins 2027 verður helgað rannsóknum á stílfræði. Áhersla er lögð á greinar sem fjalla um markvissa notkun tungumálsins – til dæmis líkingar, stílbrögð af ýmsu tagi, orðaröð, nafngiftir persóna, sjónarhorn og virkni sagna og nafnorða – til að skapa listræna upplifun í textum en með stílrannsóknum er hægt að afhjúpa pólitísk markmið höfundar og/eða rökstyðja tiltekinn skilning á verkinu. Viðfangsefnið getur verið bókmenntatextar frá öllum öldum og á erlendum málum jafnt sem íslensku og greinar sem fjalla um stílfræði í víðum skilningi eru velkomnar, t.d. greinar um frásagnarfræði, ritlist, lestrarrannsóknir, stílmælingar og fleira.

Greinum skal skilað fyrir 1. september 2026.

Ritstjórar eru Jóhannes Gísli Jónsson (jj@hi.is) og Guðrún Steinþórsdóttir (gudrunst@hi.is)