KALLAÐ EFTIR EFNI

 

Ritið 2/2025 Læknahugvísindi

Læknahugvísindi er þverfaglegt rannsóknasvið sem tengir saman læknisfræði og hugvísindi. Þeim er ætlað að stuðla að einstaklingsmiðaðri nálgun í heilbrigðisvísindum, efla þekkingu á fjölbreytileika manneskjunnar, auka skilning á tilfinningum sjúklinga og aðstæðum þeirra, liðka samskipti lækna og sjúklinga, auka samlíðun heilbrigðisstarfsfólks með skjólstæðingum og dýpka skilning á frásögnum af veikindum og lækningum. Það hefur sýnt sig að aukin samvinna heilbrigðisstarfsfólks og sjúklinga hraðar bata og forðar árekstrum á sjúkrastofnunum.

Í þessu hefti Ritsins verður leitast við að skoða hvað læknisfræðin getur lært af hugvísindum og hugvísindin af læknisfræði. Það er því kallað eftir greinum þar sem lögð er áhersla á fyrirbærafræði sjúkdómsins, læknasögur, sjúkrasögur eða sjúkdóminn sem tákn og menningu í spegli bókmennta eða annarra lista. Sömuleiðis er kallað eftir sögum aðstandenda en sögur þeirra varpa ljósi á ýmislegt sem er til sóma eða ósóma í heilbrigðiskerfinu.

Skilafrestur greina er 1. nóvember 2024.

Ritstjórar eru Dagný Kristjánsdóttir (dagny@hi.is) og Guðrún Steinþórsdóttir (gudrunst@hi.is)