KALLAÐ EFTIR EFNI

Ritið 2/2022: Femínismi í áranna rás

Þema annars heftis ársins 2022 er femínismi í áranna rás. Femínismi hefur á síðustu 100 árum breytt hugsanagangi einstaklinga og viðmiðum og gildum samfélaga. Umræðan um jafnrétti, kvenfrelsi og kynferðisofbeldi er um þessar mundir háværari en nokkru sinni fyrr. Það má því segja að femínismi sé eitt af miðlægustu málefnum samtímans. Fjórða bylgja femínismans er nú í algleymingi þar sem valdefling og aktívismi gegna lykilhlutverki. Kallað er eftir greinum þar sem leitast er við að skýra, gagnrýna eða vinna á skapandi hátt með femíníska greiningu fyrr og nú, til dæmis með hliðsjón af bókmenntum, listum, hönnun, tungumáli, samfélagi og stjórnmálum.  

Ritstjórar eru Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir 

Skilafrestur greina er til 15. janúar 2022.

Ritið 3/2022: Íslenskt táknmál 

Þetta hefti verður tileinkað íslensku táknmáli og döff menningu. Íslenska táknmálið, ÍTM, er ungt mál, einungis rúmlega 100 ára gamalt. Málið hefur þróast við erfiðar aðstæður og ekki eru nema 10 ár síðan það fékk viðurkenningu í lögum.  Rannsóknir á táknmálum hafa lagt mikið til málvísinda og má segja bylt hugmyndum okkar um mannleg mál með því að sýna fram á að mál eru til án hljóða. Rannsóknir á táknmálum hafa gefið fræðimönnum betri skilning á tungumálum og margbreytileika þeirra og einnig á máltöku barna.  Máltaka táknmálsbarna er ólík annarri máltöku vegna þess að aðeins um 5% barnanna eiga foreldra með sama móðurmál. Skólasamfélagið hefur oft verið málsamfélagið sem nærir máltöku barnanna og hafa stefnur í kennslu sem ríkja hverju sinni verið ráðandi um þróun málsins og menntun barnanna.  Á síðustu árum hefur helst verið sótt að ÍTM með breytingum á skólakerfinu og úr „tæknilegri“ átt með lífseigum hugmyndum um að raddmál séu betri en táknmál. Spurningunni hvort ÍTM lifir nú af er ósvarað.  Tekið er á móti greinum sem fjalla um táknmál/ÍTM, félagslega stöðu málsins, döff menningu, döff gróða og fleira sem fellur innan þemans.

Gestaritstjórar Rannveig Sverrisdóttir og Valgerður Stefánsdóttir 

Skilafrestur greina er til 1. mars 2022.