KALLAÐ EFTIR EFNI

Ritið 3/2023: Gagnrýni  

Forsendur, áskoranir og markmið bókmennta- og listgagnrýni hafa verið til umræðu öldum saman og áhyggjur af hnignun hennar og yfirvofandi dauða eru þar endurtekið stef. Þrátt fyrir að haldið hafi verið á lofti mörgum dæmum um neikvæð áhrif gagnrýni á stöðu höfunda, listamanna og verka innan bókmennta- og listasviðsins hafa flestir þeir sem um hana rita verið sannfærðir um gildi hennar fyrir bókmenntir, listir og samfélagið í heild. Nýjasta kreppa gagnrýninnar hefur haldist í hendur við stafræna byltingu og þá þróun að samfélagsmiðlar hafa að mörgu leyti tekið við hlutverki hefðbundinna fjölmiðla. Margt bendir til þess að forsendur bókmennta- og listgagnrýni hafi breyst og mikilvægi gagnrýnandans dalað. Í heftinu verður leitast við að greina stöðu, einkenni, forsendur, áskoranir og/eða markmið bókmennta- og listgagnrýni út frá sjónarhorni samtímans, hvort sem athygli er beint að sögulegu samhengi, áskorunum samtímans eða spáð í framtíðarhlutverk hennar. Kallað er eftir greinum um bókmennta- og listgagnrýni en einnig fræðilegum skrifum um gagnrýni almennt. Skilafrestur greina er til 1. júní.  

Gestaritstjórar eru Soffía Auður Birgisdóttir, vísindamaður á Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Hornafirði, (soffiab@hi.is) og Auður Aðalsteinsdóttir, nýdoktor við ROCS, rannsóknasetur um haf, loftslag og samfélag við Háskóla Íslands (audurada@hi.is)

 

Ritið 2/2023: Kynjahugmyndir, menning og trúarbrögð 

Hugvísindi rannsaka menningu, sögu, sjálfsmyndir og samfélög sem mótuð eru af flóknum kynjakerfum. Trúarmenning og trúarhefðir eru hluti af menningarlandslaginu og byggja þannig á kerfislægum kynjagrundvelli sem þörf er á að greina, meta og nýta við kenningasmíð og aðra þekkingaröflun. Greinakallið leitar sérstaklega eftir greinum með þessum þemum: 

  • Trúartextar og hinn kynjaði líkami 
  • Heilagt og hinsegin 
  • Trúarlegar sjálfsmyndir og mannréttindi 
  • Snerting, skynjun og erótík í andlegum bókmenntum 
  • Kirkja, kristni og kvenréttindi 
  • Kynjuð hatursorðræða í trúarlegu samhengi 
  • Loftslagsbreytingar, kyn og guðfræði 
  • Kyn- og kynhlutleysi í sálmum og helgisiðum 21. aldar 

Greinakallið leitar einnig eftir öðrum þverfræðilegum greinum á mærum kynjafræði, guðfræði, trúarbragðafræði og öðrum hug- og félagsvísindum sem tengjast trúarlegri menningu. 

Gestaritstjórar eru Sigríður Guðmarsdóttir (sigridur@hi.is) og Sólveig Anna Bóasdóttir (solanna@hi.is

Skilafrestur greina er til 1. apríl 2023.

Ritið 1/2023: Illska 

Þema fyrsta hefti ársins 2023 er illska. Margar og ólíkar skoðanir hafa verið settar fram um hvernig beri að skilgreina illsku enda eru birtingarmyndir hennar afar margvíslegar. Oft er rætt um illskuna sem andstæðu samlíðunar og hún þá jafnan tengd hryllilegum atburðum eða tilteknum gjörðum einstaklinga; í sumum tilvikum er hún lúmsk en í öðrum augljós. Illska tengist valdbeitingu sterkum böndum og er því fylgifiskur ofbeldis af öllu tagi. Hún er sívinsælt viðfangsefni listamanna sem bæði hafa lagt áherslu á að skoða birtingarmyndir hennar í víðu samhengi og þröngu; í fortíð og nútíð. Kallað er eftir greinum þar sem leitast er við að skýra og skoða illskuna fyrr og nú, til að mynda með hliðsjón af bókmenntum, listum, samskiptum, tungumáli, samfélagi og stjórnmálum.   

Ritstjóri er Guðrún Steinþórsdóttir (gus26@hi.is

Skilafrestur greina er til 30. janúar 2023.