KALLAÐ EFTIR EFNI

Ritið 1/2024: Nýjar rannsóknir í vinnusögu

Rannsóknir á sögu vinnandi fólks hafa á undanförnum árum tekið miklum breytingum. Með nýjum áherslum, aðferðum, hugtökum og kenningum hafa sagnfræðingar horfið frá ýmsum viðteknum viðmiðum í vinnusögu (e. labour history) sem lengi einkenndu þessa undirgrein sagnfræðinnar, svo sem að tilurð verkalýðsstéttar samhliða iðnvæðingu hafi verið afgerandi vendipunktur. Undir áhrifum frá kvenna- og kynjasögu, menningarsögu og hnattrænni sögu (e. global history) hefur sjónum þess í stað í auknum mæli verið beint að margslungnu sambandi vinnandi fólks fyrri tíma við vinnuveitendur sína og nærsamfélag, að ólaunaðri vinnu inni á heimilum, að samfélagslegum áhrifum atvinnulöggjafar, að flóknum tengslum þvingunar og vinnu, að hreyfanleika vinnandi fólks innan og á milli ólíkra vinnu- og hagkerfa, að atbeina vinnandi fólks og tækifærum þeirra til undanbragða og andófs svo fátt eitt sé nefnt. Með víðari tímaramma og fjölbreyttari efnistökum hefur vinnusaga þannig á undanförnum árum verið vettvangur frjórra og nýstárlegra rannsókna í sagnfræði sem kallað hafa á ný hugtök, nýjar aðferðir og nýjar nálganir. Kallað er eftir greinum sem fjalla um vinnu og vinnandi fólk á Íslandi á öllum tímabilum Íslandssögunnar og taka með einum eða öðrum hætti mið af fyrrgreindum áherslubreytingum.

Skilafrestur greina er 1. október 2023.

Gestaritstjórar eru Vilhelm Vilhelmsson (vilhelmv@hi.is) og Ragnheiður Kristjánsdóttir (ragnhk@hi.is)

Ritið 2/2024: Rauðar heimsbókmenntir  

Menningarpólitík Þriðja alþjóðasambands kommúnista, eða Komintern (1919-1943), snerist að miklu leyti um tilraunir til að skapa nýtt hefðarveldi heimsbókmennta og -menningar. Hinu nýja hefðarveldi var stefnt gegn því hefðarveldi borgaralegra bókmennta og lista sem hverfðist um starfsemi í helstu menningarborgum Evrópu á þessum tíma. Verkefnið lifði af endalok Þriðja alþjóðasambandsins og hafði mikil áhrif á menningarlandslag eftirstríðsáranna og allt fram að falli Sovétríkjanna árið 1991. Það menningarlega heimskerfi sem þarna hafði skapast teygði anga sína víða um heim og var sérstök áhersla lögð á að ná til Asíu og Afríku. Einnig horfðu margir rithöfundar og listamenn á jaðarsvæðum til Sovétríkjanna og sóttust eftir því að vera þátttakendur í sköpun alþjóðasinnaðra eða rauðra heimsbókmennta og -menningar. Hið nýja heimskerfi teygði sig einnig hingað til lands og má sjá greinileg ummerki þess í bókmenntalegri og menningarlegri starfsemi vinstrihreyfingarinnar á fyrri hluta tuttugustu aldar, en einnig á síðari tímum. Kallað er eftir greinum sem beina sjónum að og takast á við nýlegar rannsóknir sem leitast hafa við að kortleggja menningarsvæði rauðra heimsbókmennta á 20. öld og leggja áherslu á að skoða þá bókmenntaheima (e. literary worlds) og þau tengslanet sem mótuðust innan ákveðinna þjóðlanda eða á stærri menningar- og tungumálasvæðum. Sérstök áhersla er lögð á menningarhefðir sem þróuðust í fjarlægð frá miðju menningar- og bókmenntakerfis Sovétríkjanna eða á jöðrum kerfisins.

Skilafrestur greina er 1. nóvember, 2023.

Gestaritstjórar eru Anna Björk Einarsdóttir, nýdoktor við Háskóla Íslands (abe@hi.is), og Benedikt Hjartarson, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands (benedihj@hi.is).

Ritið 3/2024: Sannsögur

Hugtakið sannsaga er tilraun til þess að þýða það sem kallað hefur verið „creative nonfiction“ á ensku. Einkunnarorð tímarits sem helgað er þessari bókmenntagrein fanga vel við hvað er átt: „True Stories, Well Told“ eða sannar sögur, vel sagðar. Í sannsögum er leitast við að hafa það sem sannast reynist og þær eru vel sagðar vegna þess að efnið er sett fram með aðferðum frásagnarlistarinnar sem oft felur í sér að breyta því í sögu og nýta sjálfa/n sig sem sögumann. Sumum gæti þótt það eitt að nýta verkfærakistu frásagnarlistarinnar nóg til þess að draga sannleiksgildið í efa. Því svarar Lee Gutkind, einn af guðfeðrum þessarar bókmenntagreinar, með því að sköpunarhlutinn í enska hugtakinu feli oft í sér að sýna frumkvæði og útsjónarsemi þegar kemur að því að leita að, safna og nýta upplýsingar. Það sé engin ástæða til að spinna eitthvað upp. Undir sannsögur fellur margs konar óskáldað efni, s.s. minningasögur (e. memoir), persónulegar esseyjur og ferðasögur en aðferðina má nýta við alls kyns skrif til að gera efnið aðgengilegra, hvort sem um vísindi, fræði eða persónuleg skrif er að ræða. Kallað er eftir greinum um sannsögur af einhverju tagi og/eða aðferðafræðina sem beitt er. Jafnframt er kallað eftir esseyjum, þýddum eða frumsömdum, sem ritaðar eru með sannsagnaaðferðinni.

Skilafrestur greina er 1. febrúar 2024. Gestaritstjórar eru Huldar Breiðfjörð (huldar@hi.is) og Rúnar Helgi Vignisson (rhv@hi.is)