KALLAÐ EFTIR EFNI

Ritið: 3/2021 Áhrif stafrænnar tækni og miðla á íslenskt mál og menningu 

Þriðja hefti Ritsins 2021 verður helgað áhrifum stafrænnar tækni og miðla á íslenskt mál og menningu. Frá því að vefurinn kom fram fyrir aldarfjórðungi hafa áhrif stafrænnar miðlunar á íslenskt samfélag margfaldast, ekki síst eftir að snjalltækjabyltingin hófst fyrir áratug. Verulegur hluti þjóðarinnar, einkum yngra fólk, lifir nú og hrærist í stafrænum heimi netsins, streymisveitna, snjallsíma og tölvuleikja, þar sem enska er oft aðaltungumálið. Það fer varla hjá því að þetta mikla enskuáreiti hafi einhver áhrif á íslenskt mál og stöðu þess í samfélaginu. Áhrifin geta verið margs konar og bæði skert umdæmi málsins, þannig að það verði víkjandi eða jafnvel ónothæft á ákveðnum sviðum, og einnig haft áhrif á form þess, þannig að einhverjir þættir í framburði, beygingum, setningagerð, merkingu og orðaforða verði fyrir beinum áhrifum frá ensku. Jafnframt er hugsanlegt að aukning ensks máláreitis í samfélaginu hraði breytingum á íslensku sem þegar eru komnar af stað, auki enskukunnáttu landsmanna og hafi áhrif á viðhorf til tungumálanna tveggja. 

Kallað er eftir fræðilegum greinum sem fjalla um áhrif stafrænnar tækni, miðla og miðlunar á íslenskt mál og menningu og á tungumálakunnáttu landsmanna. Þetta er mjög vítt efni og umfjöllunin getur verið frá ýmsum sjónarhornum – snúist um máltöku, félagsmálfræði, málbreytingar, formlega málfræði o.fl. Einnig verður tekið við greinum um stafræn áhrif á íslenskar bókmenntir og menningu almennt. Gestaritstjórar eru Eiríkur Rögnvaldsson (eirikur@hi.is) og Sigríður Sigurjónsdóttir (siggasig@hi.is). Skilafrestur greina er til 1. apríl 2021. 

Um leið minnum við á að Ritið tekur við greinum utan þema allt árið um kring. Aðsendar greinar skulu sendar á ritid@hi.is.

Ritið:1/2022 Plágan 

„Ég ætla einfaldlega að segja frá því eins og það gerðist.“ Þetta skrifaði forngríski sagnaritarinn Þúkýdídes í lýsingum sínum á plágunni sem geisaði í Aþenu árið 430 f.Kr. Tilgangur hans með skrifunum var sá að aðrir gætu dregið lærdóm af þeim ef slíkur faraldur kæmi upp aftur. Á tímum Covid-19 höfum við sótt í heimildir um liðnar farsóttir til að reyna að skilja ástandið sem við búum nú við, en kannski ekki síður til að sannfæra okkur um að það taki enda að lokum. Á sama hátt hefur ásóknin aukist í skáldskap um plágur og þá má ætla að hin breytta heimsmynd sem nú blasir við hafi áhrif á upplifun og túlkun lesenda. Þannig er ekki ólíklegt að táknsögulegt gildi Plágunnar eftir Albert Camus víki fyrir bókstaflegum lestri árið 2020 þar sem sóttkví og örmagna heilbrigðisstarfsmenn eru fyrirsagnir í fréttum dagsins. Og einangrun, ótti og birgðasöfnun færir okkur nær sögupersónum Boccaccios í Tídægru en við kannski kærum okkur um. Enn er óvíst hversu lengi ástandið varir eða hverjar afleiðingarnar verða til lengri tíma, en á meðan er mikilvægt að skrásetja, túlka og setja í samhengi við til dæmis fortíðina og skáldskapinn. Því verður sjónum beint að ólíkum birtingarmyndum plágunnar í fyrsta hefti Ritsins 2022. En hugtakið má einnig ræða í víðara samhengi því orðið „plága“ hefur verið haft yfir fleira en drepsóttir. Plága er þungt böl, hún er það sem hrellir, kvelur og lítill friður er fyrir og nær því yfir mun fleiri fyrirbæri en heimsfaraldra. Kallað er eftir greinum sem hverfast um þetta viðfangsefni á einn eða annan hátt, til dæmis út frá samtímanum, fyrri öldum eða einstökum verkum.  

Greinum skal skilað fyrir 1. júlí 2021 til Guðrúnar Steinþórsdóttur (gus26@hi.is) og Sigrúnar Margrétar Guðmundsdóttur (smg1@hi.is).