Ritið_Kápa_03_2024.jpg

Sannsaga er þýðing á enska hugtakinu creative nonfiction en skrif sem falla þar undir hafa verið fyrirferðarmikil á undanförnum árum. Ritið samanstendur að þessu sinni af sex esseyjum og fjórum fræðigreinum sem ýmist takast með beinum hætti á við sannsögur eða sveima í kringum þær.

Rúnar Helgi Vignisson og Huldar Breiðfjörð spyrja hvað sé sannsaga, nálgast hugtakið úr ýmsum áttum og skoða hvernig fræðimenn hafa skilgreint sannsögur og dregið línuna á milli þeirra og annarra bókmennta. Soffía Auður Birgisdóttir rýnir í landamæri skáldskapar og æviskrifa, rannsóknarsögu sjálfsæviskrifa og veltir fyrir sér hvað sé skáldævisaga. Flóki Larsen beinir sjónum að Harmsögu æfi minnar eftir Jóhannes Birkiland með hliðsjón af birtingarmynd andhetjunnar í bæði þekktum skáldverkum og öðrum íslenskum sjálfsævisögum. Fjórða fræðigreinin er eftir Huldar Breiðfjörð og fjallar um ferðasögur sem er einn þriggja undirflokka sannsögunnar. Í greininni er hinn langi þróunartími ferðasögunnar rakinn og spurt um stöðu hennar í dag. Er ferðasagan kannski dauð?

Í esseyjunni „Köldukvíslarkver“ heldur Dalrún Kaldakvísl með upptökutæki á æskuslóðir sínar við Kaldá í Mosfellsdal og ræðir þar við sveitunga um samband þeirra við ána í gegnum tíðina. Í annarri persónulegri esseyju, „Sann-leikurinn“, veltir Margrét Ann Thors fyrir sér stöðu kristinnar trúar í samtímanum og gaumgæfir þá stöðu í bland út frá tungumálunum ensku og íslensku. Loks skrifar Gunnþórunn Guðmundsdóttir „Þætti af minni og gleymsku“ í esseyju þar sem hrærast saman fræði, skáldskapur og minningabrot.

Í heftinu er einnig að finna þrjár nýjar íslenskar þýðingar. Ritgerðin „Heimkomur“ eftir franska nóbelsverðlaunahöfundinn Annie Ernaux og í þýðingu Ásdísar R. Magnúsdóttur segir frá stuttri heimsókn höfundarins til móður hennar og bregður sterku ljósi á samband þeirra mæðgna. „Sannleikur sem við gætum lifað með“ eftir Robin Hemley rekur einnig samband höfundar og móður og inniheldur vangaveltur um hver megi skrifa um hvern innan sömu fjölskyldu. Hemley hefur sent frá sér 15 bækur og kennt ritlist við háskóla víða um heim, nú síðast sem gestakennari við meistaranámið í ritlist við HÍ. Þriðja þýdda ritgerðin er „Sannleikurinn í Oxiana“ eftir Tom Bissell sem er amerískur blaðamaður, gagnrýnandi og rithöfundur. Í henni skoðar Bissell hversu sannur texti yfirleitt getur verið en ritgerðin hefur vakið töluverða athygli þeirra sem láta sig sannsögur varða.

Að þessu sinni fellur ein grein utan þema en hún nefnist „Lifandi veggir og mannabústaðir undir yfirborði jarðar“ og er eftir Helgu Jónsdóttur. Greinin fjallar um ókennileg rými og innilokaðar konur í ljóðabókinni Kjötbærinn (2004) og smásögunni „Þrjár hurðir“ (2010) eftir Kristínu Eiríksdóttur.

Ritstjórar þemahluta heftisins eru Rúnar Helgi Vignisson og Huldar Breiðfjörð. Aðalritstjóri Ritsins er Guðrún Steinþórsdóttir. Ljósmynd á kápu er eftir Einar Fal Ingólfsson og er tekin í Varanasi á Indlandi árið 2024. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og prófarkalestur var í höndum Dagbjartar Guðmundsdóttur.

Útgefið: 2024-12-21