Valið hefti

Þetta þemahefti Ritsins er helgað smásögum. Hér er um að ræða ítarlegar útgáfur af erindum sem flutt voru á ráðstefnunni Heimur smásögunnar sem haldin var í Háskóla Íslands dagana 30. september og 1. október 2023. Heftið samanstendur af þrettán ritrýndum greinum þar sem komið er að smásögunni úr ýmsum áttum, auk þess sem gefið er yfirlit yfir þróun smásagnafræða í inngangi.
Alda Björk Valdimarsdóttir birtir hér grein um söguna „The Displaced Person“ eftir hina bandarísku Flannary O‘Connor. Verkið er löng smásaga, stundum raunar kölluð nóvella, og fjallar um atburði sem eiga sér stað á búgarði í Georgíu í Bandaríkjunum skömmu eftir lok síðari heimsstyrjaldar.
Segja má að smásögur lagi sig einkar vel að barnabókmenntum, að minnsta kosti hafa stuttar frásagnir iðulega ratað í verk ætluð börnum. Ásdís Rósa Magnúsdóttir fjallar um smásögur sem finna má í fyrstu bókunum sem skrifaðar voru fyrir börn hér á landi, Sumargjöf handa börnum og Kvöldvökurnar 1794.
Guðrún Kristinsdóttir beinir sjónum að sögulegu smásögunni í Frakklandi á 17. öld en þar á smásagnaritun sér langa hefð og margar birtingarmyndir. Guðrún fjallar um sögulega sagnagerð hins áhugaverða franska rithöfundar Madame de Lafayette.
Guðrún Steinþórsdóttir tekur fyrir þrjár sögur úr bókinni Einu sinni sögur eftir Kristínu Ómarsdóttur, „Eiginkonu guðs“, „Hvíldardag“ og „Vegakort“, og sýnir fram á að þær myndi eins konar sagnasveig um hjónaband og hversdagslegt líf guðs og eiginkonu hans.
Gunnþórunn Guðmundsdóttir greinir smásöguna „Jæjabúðin“ eftir Elenu Ilkovu í ljósi eftirlendufræða, frásagnarfræða og út frá hugmyndum um fjöltyngi og innflytjendabókmenntir. Ilkova er einn þeirra höfunda af erlendu bergi sem hafa haslað sér völl hérlendis á undanförnum árum.
Haukur Ingvarsson fjallar um smásögu Kristínar Eiríksdóttur frá 2013, „Hundrað og fimmtíu fermetrar á hundrað þúsund kall“, með hliðsjón af tveimur lykilskáldsögum íslensks módernisma á sjöunda áratug síðustu aldar: Tómasi Jónssyni. Metsölubók (1966) eftir Guðberg Bergsson og Leigjandanum (1969) eftir Svövu Jakobsdóttur.
Helga Birgisdóttir tekur smásöguna fyrir sem hluta af bókmenntanámi íslenskra framhaldsskólanema. Greinin byggir á niðurstöðum höfundar úr rannsókn á íslenskukennslu í framhaldsskólum sem fór fram á árunum 2020–2022 og sýndi meðal annars neikvæðara viðhorf kennara og nemenda til smásagna en skáldsagna.
Kristín Guðrún Jónsdóttir staldrar við þrjár af sögum mexíkóska rithöfundarins Amparo Dávila sem komu út í smásagnasafninu Tiempo destrozado (Ónýtir tímar). Kristín Guðrún bendir á að sögur hennar séu margræðar og tímalausar og að lesandinn þurfi sjálfur að kljást við þögnina eða spurningar sem vakna við lesturinn.
Marion Lerner fjallar um þýskar þýðingar á íslenskum smásögum og nóvellum í kringum aldamótin 1900. Hún gerir grein fyrir starfsemi fimm þýðenda sem á þessum árum þýddu verk íslenskra sagnaskálda. Þýðendurnir fengust einnig við ýmsa umfjöllun og kynningu á íslensku sögunum og bakgrunni þeirra – skrifuðu „hliðartexta“ sem gátu haft sitt að segja um viðtökur verkanna í nýjum málheimi.
Það kveður við annan tón í umfjöllun Rebekku Þráinsdóttur um smásagnasafnið Riddaraliðið eftir rússneska rithöfundinn Ísaak Babel. Sögurnar segja frá misheppnaðri herferð Fyrsta riddaraliðs Rauða hersins til Póllands vorið 1920 í þeim tilgangi að breiða út fagnaðarerindi kommúnismans.
Rúnar Helgi Vignisson nálgast smásöguna sem ritlistarkennari. Hann tíundar eitt og annað sem smásagnahöfundur gæti haft hag af að tileinka sér og varar við öðru. Meðfram vísar hann beint og óbeint til ýmissa kennisetninga um einkenni smásögunnar en bendir um leið á mátt hennar til að umskapa sig.
Við höfum ef til vill ekki tengt Þórberg Þórðarson sérstaklega við smásagnagerð en Soffía Auður Birgisdóttir bendir á frásagnir í verkum hans sem fella mætti undir regnhlífarhugtakið smásögur. Hún telur að þessar frásagnir sýni hve trúr Þórbergur var þeirri sannfæringu að formið ætti að laga sig að viðfangsefninu sem rími vel við áherslur í smásagnafræðum.
Loks tekur Sveinn Yngvi Egilsson fyrir smásöguna „Big Two-Hearted River“ („Tvíhjartað stórfljót“), eina þekktustu smásögu Ernests Hemingways sem lagði þungt lóð á vogarskál smásögunnar á 20. öld með sínum ísjakastíl þar sem verulegur hluti erindisins er óorðaður. Sveinn Yngvi gaumgæfir söguna í ljósi vistrýni og áfallafræða.
Ritstjórar þessa þemaheftis eru Ásdís Rósa Magnúsdóttir, Ástráður Eysteinsson, Kristín Guðrún Jónsdóttir og Rúnar Helgi Vignisson, en aðalritstjóri Ritsins er Guðrún Steinþórsdóttir. Forsíðuna prýðir ljósmynd Gunnars Sverrissonar af ýmsum smásagnasöfnum. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Dagbjört Guðmundsdóttir um prófarkalestur.