Leikið orðtólum

Um málfræðinginn og táknfræðinginn Þórberg Þórðarson

  • Aðalsteinn Eyþórsson
  • Bergljót Soffía Kristjánsdóttir
Efnisorð: Þórbergur Þórðarson, málfræði, táknfræði, líftáknfræði, Tumma kukka, Steinarnir tala

Abstract

Margt hefur verið skrifað um skáldið og rithöfundinn Þórberg Þórðarson. Minna hefur verið hugað að málfræðingnum Þórbergi og táknskilningi hans. Í þessari grein er hann þó meginathugunarefnið og ætlunin einkum að vekja forvitni manna um svið í skrifum Þórbergs sem hefur lítið verið sinnt. Viðhorf Þórbergs til ýmissa álitamála í málfræði eru skoðuð í sögulegu ljósi og stiklað á stóru um hræringar í samanburðarmálfræði á nítjándu öld og fram á þá tuttugustu, en táknskilningur hans borinn að kenningum táknfræðinga af ólíkum fræðasviðum. Þórbergur stundaði nám í norrænu við Háskóla Íslands og starfaði meðal annars við orðasöfnun úr mæltu máli. Í krafti áhuga á guðspeki og esperantó kynntist hann líka alþjóðlegum straumum og stefnum í málfræði en eins og jafnan vann hann á sjálfstæðan hátt úr þeirri þekkingu sem hann aflaði sér. Hann las til að mynda rit danska málfræðingsins Ottos Jespersen og þar kynntist hann sennilega kenningum Ferdinands de Saussure. Á Jespersen leit hann raunar sem „svikara“ við málstað esperantós en engu að síður áttu þeir eitt og annað sameiginlegt, til dæmis áhuga á máli barna og leik með mál. Þórbergur tók líka undir ýmsar hugmyndir Danans, ekki síst um aflvaka málbreytinga, en í þeim efnum var Jespersen mjög gagnrýninn á formhyggju Saussures. Sú umræða á sér að líkindum pólitíska hlið, en þjóðtungur, uppruni þeirra og þróun, höfðu verið dregnar inn í þjóðernisorðræðu á fyrri hluta tuttugustu aldar. Þá er rakið hvernig Þórbergur beitir í frásögninni „Tummu Kukku“ málfræðiskopi til að draga dár að þjóðrembu og málfræðilegri ályktanagleði um leið og hann tæpir á almennum spurningum um mál og merkingu. Sá táknskilningur sem lýsir af skrifum Þórbergs virðist standa nær hugmyndum bandaríska heimspekingsins Charles Sanders Peirce en Saussures. Peirce er talinn ein meginstoðin undir því fræðasviði sem landi hans Thomas A. Sebeok kallaði seinna dýratáknfræði (e. zoosemiotics) og líftáknfræði (e. biosemiotics). Önnur slík stoð er Eistinn Jakob Johann von Uexküll sem setti fram kenninguna um skynheim (þ. Umwelt) dýra. Dæmi tekin úr bókinni Steinarnir tala vitna um að Þórbergur sé á áþekkum slóðum og Uexküll í afstöðu sinni til skynjunar dýra auk þess sem Eistinn er upptekinn af barninu og hinu barnslega rétt eins og Þórbergur (og Jespersen). Allir þrir, Peirce, Uexküll og Þórbergur vildu ganga veg vísindanna en hneigðust samt til dulhyggju og höfnuðu efnishyggju. Enginn vitnisburður hefur fundist um að Þórbergur hafi þekkt til Peirce og Uexkülls en þann samhljóm sem heyra má með hugmyndum hans og þeirra er unnt að rekja til ákveðinnar tilhneigingar í tímunum: Uppreisn gegn vaxandi efnishyggju kann að leiða til áþekkrar niðurstöðu þó að forsendur hennar séu ólíkar. Grundvöllur Þórbergs var ekki síst guðspekin og austrænu fræðin. En séu hugmyndir hans bornar að skrifum líftáknfræðinga kemur í ljós hve langt á undan íslenskri samtíð sinni hann var í táknskilningi.

Downloads

Download data is not yet available.

Author Biographies

Aðalsteinn Eyþórsson

Íslenskufræðingur við ReykjavíkurAkademíuna.

Bergljót Soffía Kristjánsdóttir

Prófessor í íslenskum bókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Útgefið
2020-09-08