• Ritið:3/2022. Íslenskt táknmál
  Númer 3 (2022)

  Ritið_Kápa_03_2022.png

  Íslenskt táknmál, ÍTM, er þema Ritsins sem hér birtist. ÍTM er eina hefðbundna minnihlutamálið á Íslandi og er fyrsta mál um 2-300 Íslendinga. Það var viðurkennt sem „jafnrétthátt íslensku sem tjáningarform í samskiptum manna í milli“ með lögum árið 2011. Málið er viðkvæmt sökum þess hve jaðarsett það er og líður endurtekið fyrir það að vera minnihlutamál sem litið er á sem hjálpartæki en ekki tungumál og menningararfur. Innan þemans birtast þrjár ritrýndar greinar og auk þess stutt grein með myndefni um listir. Um sögu og uppruna ÍTM hefur lítið verið vitað hingað til en um það er fjallað í grein Valgerðar Stefánsdóttur. Jóhannes Gísli Jónsson ber í sinni grein saman táknmál og raddmál og gerir grein fyrir áhrifum miðlunarháttar á tungumál. Rannveig Sverrisdóttir og Kristín Lena Þorvaldsdóttir ræða þingályktunartillögu um málstefnu ÍTM í ljósi málstefnufræða og hvort tillagan geti bætt málumhverfi barna og unnið gegn útrýmingu ÍTM.

  Þá er í heftinu kafli þar sem fjallað er um döff listir, ýmsa anga listarinnar sem lifir góðu lífi á meðal þeirra sem tala ÍTM. Hér er rafræn útgáfa tímaritsins nýtt til hins ýtrasta og myndbönd sem sýna táknmálsbókmenntir og viðtal við myndlistarmann gerð aðgengileg. Með því að rannsaka, fjalla um, sýna og ekki síst tala ÍTM er von til þess að málið lifi og þróist enn frekar.

  Að þessu sinni birtast tvær greinar utan þema. Alda Björk Valdimarsdóttir fjallar um samlíðan sem pólitíska og félagslega stýringu á meðan að Sigurður Kristinsson beinir sjónum að sambandi háskóla við lýðræði.

  Gestaritstjórar heftisins eru Rannveig Sverrisdóttir og Valgerður Stefánsdóttir en aðalritstjóri þess er Guðrún Steinþórsdóttir. Forsíðuna prýðir teikning Arnþórs Hreinssonar en um myndlist hans er fjallað í heftinu. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Dagbjört Guðmundsdóttir um prófarkalestur. 

 • Ritið:2/2022. Afsakið þetta smáræði!
  Númer 2 (2022)

  Ritið_Kápa_02_2022.png

  Þema Ritsins er að þessu sinni helgað rannsóknum á femínisma en undir hatti þess birtast sjö greinar, allar eftir fræðikonur. Síðustu þrjár bylgjur femínismans eru í brennidepli þótt sjónarhorn og áherslur höfunda séu gagnólík. Ásdís Helga Óskarsdóttir og Guðrún Steinþórsdóttir beina sjónum að íslenskum samtímabókmenntum. Ásdís Helga fjallar um aðdraganda fjórðu bylgju femínismans í íslensku samfélagi og bókmenntir ungra, íslenskra kvenna sem innlegg í baráttuna á meðan að Guðrún skrifar um leiksöguna Systu megin eftir Steinunni Sigurðardóttur.

  Kynfrelsi og klámvæðing í pósfemínískri umræðu er viðfangsefni Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur. Hún leitast meðal annars við að draga fram hvernig póstfemínisminn er hluti af þriðju bylgju femínisma og hvernig hann sem slíkur hefur áhrif á fjórðu bylgjuna þrátt fyrir að hugmyndaheimur hans geti hljómað annarlega í ljósi aðgerðarstefnu Metoo-bylgjunnar. Arnfríður Guðmundsdóttir lítur aftur á móti til upphafsára femínískrar guðfræði og ræðir um helstu áherslur femínískrar nálgunar innan guðfræðinnar og þá gagnrýni sem frumkvöðlar hennar settu fram á hefðbundna guðfræðiumræðu. Þá fjallar Unnur Birna Karlsdóttir um nokkur meginatriði í hugmyndafræði vistfemínisma og hvernig þessarar stefnu hefur gætt hérlendis í umræðu um jafnréttismál og umhverfisvernd. Hólmfríður Garðarsdóttir skrifar hins vegar um þær aðstæður sem biðu kvenna í kjölfar hernáms Evrópumanna á Rómönsku-Ameríku. Síðast en ekki síst ræðir Helga Kress andstöðu karllægrar bókmenntastofnunar við femínískar bókmenntarannsóknir við upphaf þeirra hérlendis, í hvaða myndum hún birtist og helstu einkenni á orðræðu hennar.

  Að þessu sinni er ein þýðing í heftinu sem fellur utan þema. Það er greinin „Staða þýddra bókmennta innan fjölkerfis bókmenntanna“ eftir Itamar Even-Zohar sem birtist hér í þýðingu Jóns Karls Helgasonar. 

  Ritstjórar heftisins eru Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Dagbjört Guðmundsdóttir um prófarkalestur. Málverkið á kápu Ritsins er eftir Ragnheiði Jónsdóttur og nefnist Deluxe and Delightful.

 • Ritið:1/2022. Plága
  Númer 1 (2022)

  Ritið_Kápa_01_2022_0k.png

  Covid-19 faraldurinn hefur verið fólki hugleikinn síðastliðin misseri og af því ræðst þema Ritsins 1/2022, sem er plágan. Greinahöfundar heftisins eiga það sameiginlegt að beina sjónum sínum að því hvernig plágur birtast í textum frá ólíkum tímum. Þemagreinarnar eru fimm talsins en innan þemans birtast einnig skáldaðir textar eftir Steinunni Sigurðardóttur, Önu Mjallhvíti Drekadóttur, Gyrði Elíasson, Þórdísi Helgadóttur og þýðing Steinunnar Sigurðardóttur á ljóði eftir Adam Zagajewski. Auk þess prýðir heftið ljósamyndaþáttur úr smiðju Kristins Ingvarssonar sem fangar vel íslenskt samfélag á tímum kórónuveirunnar.

  Í greininni „Bókmenntir í blárri móðu“ fjallar Aðalheiður Guðmundsdóttir um veikar söguhetjur eins og þær koma fyrir sjónir í fornaldarsögum og riddarasögum. Hún fjallar sérstaklega um Ála flekks sögu sem hún greinir út frá veikindum Ála, aðalpersónu sögunnar, og leitast við að tengja hana veruleika fólks á 15. öld og þá sér í lagi svartadauða eða plágunni miklu sem geisaði tvívegis hér á landi á þeim tíma. Katelin Marit Parsons fjallar um íslenskar faraldurslýsingar á árnýöld. Í greininni segir hún frá því að kýlapestin hafi gengið tvisvar yfir á Íslandi á 15. öld með hörmulegum afleiðingum fyrir samfélagið þótt langtímaáhrif plágunnar á íslenska menningu hafi ekki verið eins afgerandi og í mörgum öðrum samfélögum í Norður-Evrópu.

  Alda Björk Valdimarsdóttir skrifar um skáldsöguna Howards End (1910) eftir breska rithöfundinn E.M. Forster og sýnir fram á hvernig sagan setur fram lausn sem felst í jafnrétti og kvenlegri stýringu andspænis ofríki mannsins gegn heiminum og forræðishyggju, þar sem einvörðungu er tekið og engu skilað til baka. Þannig dregur Alda Björk fram hvernig sagan á vel við á tímum loftslagsbreytinga. Dauðinn gegnir lykilhlutverki í heimspeki Alberts Camus en í skrifum sínum leitast Jón Bragi Pálsson við að draga saman umfjöllun hans um dauðann í nokkrum lykilverkum rithöfundarins, einkum skáldsögunnar Plágunnar, til að varpa ljósi á ákveðna heildarkenningu sem býr þar að baki. Atli Antonsson bendir á að háa tíðni náttúruhamfara í íslenskum samtímabókmenntum megi túlka sem menningarlegt uppgjör við Hrunið og tengda atburði. Hann spáir því að á áratugnum sem nú er genginn í garð muni skáldskapur sem tengist úrvinnslu kórónuveirufaraldursins velta eldgosum úr sessi sem algengustu náttúruhamfarirnar í íslenskum skáldsögum.

  Tvær greinar birtast utan þema að þessu sinni. Sigrún Margrét Guðmundsdóttir skrifar greinina „Fíklar í bata“ þar sem hún fjallar um upphafsár íslenska raunveruleikasjónvarpsins, sem kalla mætti gullaldarár þess, frá 2000–2006, og Svavar Hrafn Svavarsson fjallar um túlkun arftaka Platons, sem voru efahyggjumenn, á heimspeki hans, í greininni „Arfur Platons“.

  Ritstjórar heftisins eru Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Dagbjört Guðmundsdóttir um prófarkalestur. Málverkið á kápu Ritsins er eftir Egil Eðvarðsson og nefnist Plágan.

 • Ritið:3/2021. Áhrif stafrænnar tækni og miðla á íslenskt mál og menningu
  Númer 3 (2021)

  Ritið_Kápa_03_2021_0k.png

  Frá því að vefurinn kom fram fyrir aldarfjórðungi hafa áhrif stafrænnar miðlunar á íslenskt samfélag margfaldast, ekki síst eftir að snjalltækjabyltingin hófst fyrir rúmum áratug. Verulegur hluti þjóðarinnar, einkum börn og yngra fólk, lifir nú og hrærist í stafrænum heimi netsins, streymisveitna, snjallsíma og tölvuleikja, þar sem enska er oft aðaltungumálið. Það fer varla hjá því að þetta mikla enskuáreiti hafi einhver áhrif á íslenskt mál og stöðu þess í samfélaginu. Þessar stórfelldu tæknibreytingar og umræða í samfélaginu um áhrif þeirra á íslenskuna voru hvatinn að öndvegisverkefninu „Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis“ sem gestaritstjórar þessa heftis, Sigríður Sigurjónsdóttir og Eiríkur Rögnvaldsson, stýrðu og styrkt var af Rannsóknasjóði á árunum 2016–2019. Þegar öndvegisverkefninu lauk kviknaði sú hugmynd að efna til greinasafns sem helgað væri áhrifum stafrænnar tækni og miðla á íslenskt mál og menningu enda hafa fleiri rannsóknir sem varða þetta efni verið gerðar á undanförnum árum.

  Við þökkum öllum þeim sem hlýddu greinakalli okkar en velja varð úr innsendum greinum. Þemagreinar heftisins eru sjö talsins og fjalla um fjölbreytt efni þótt stafræn áhrif á íslensku sé sameiginlegt þema þeirra allra. Tvær fyrstu greinarnar eru unnar upp úr efni sem safnað var innan öndvegisverkefnisins „Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis“. Iris Edda Nowenstein og Sigríður Sigurjónsdóttir gera grein fyrir niðurstöðum tölfræðilegrar greiningar á áhrifum ensks ílags og málnotkunar á íslenskan og enskan orðaforða og málfræðikunnáttu þeirra 3–12 ára íslensku barna sem svöruðu netkönnunum verkefnisins og komu í viðtöl og ítarlegri prófanir. Hildur Hafsteinsdóttir, Sigríður Sigurjónsdóttir og Þorbjörg Þorvaldsdóttir fjalla um áhrif ensks ílags og málnotkunar á íslenskan hreim í enskuframburði 14–83 ára Íslendinga, sem tóku þátt í viðtalshluta öndvegisverkefnsins, og hvort sjá megi einhver tengsl í niðurstöðum við aldur fólks og viðhorf þess til enskunotkunar. Næstu tvær greinar eru unnar upp úr efni sem safnað var innan rannsóknarverkefnisins „Íslenskt unglingamál. Rannsókn á samskiptaaðferðum í raungögnum“, sem styrkt var af Rannsóknasjóði og Helga Hilmisdóttir stýrði á árunum 2018–2021. Helga Hilmisdóttir segir frá rannsókn á enskum framandorðum í samtölum tveggja fimmtán ára grunnskóladrengja sem eru að spila tölvuleikinn Grand Theft Auto. Ragnheiður Jónsdóttir og Helga Hilmisdóttir gera grein fyrir áhrifum stafrænnar tækni á á rithátt unglinga á slanguryrðum en rannsóknin byggist á vefkönnun þar sem unglingar voru beðnir að nefna slanguryrði yfir tiltekin hugtök og búa til dæmi um notkun þeirra. Síðustu þrjár greinarnar eru ekki afurðir stórra rannsóknarverkefna en tengjast þó ýmsum viðfangsefnum höfunda sinna. Ásgrímur Angantýsson og Finnur Friðriksson fjalla um íslensk-ensk málvíxl framhaldsskólanema á samfélagsmiðlunum Facebook og Messenger, þ.e. þegar ensk orð, orðasambönd, setningar og jafnvel lengri segðir eru notaðar inni í texta sem annars er á íslensku. Agnes Sólmundsdóttir, Dagbjört Guðmundsdóttir, Lilja Björk Stefánsdóttir og Anton Karl Ingason leiða í ljós kynjahalla í íslenskum þýðingum Google Translate en þau könnuðu í hvaða kyn þýðingarforritið setur íslensk lýsingarorð þegar það þýðir setningar þar sem lýsingarorð á við fyrstu persónu fornafn úr ensku þar sem lýsingarorð beygjast ekki í kynjum. Loks leitast Ari Páll Kristinsson við að varpa nýju ljósi á meginþræði íslenskrar málstefnu út frá þeirri kenningu Bernards Spolsky að málstefna hvíli á þremur meginþáttum, málhegðun, málviðhorfum og málstýringu, og tengir tvo fyrri þættina niðurstöðum úr öndvegisverkefninu „Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis“.

  Ein grein birtist utan þema að þessu sinni, „Ótti sem rennur úr jörðinni. Þar fjallar Sigrún Margrét Guðmundsdóttir um virkni reimleikahússins í Hálendinu eftir Steinar Braga, sem er ekki bundið eiginlegu húsi heldur fremur fólgin í landslaginu. Þannig fylgir höfundurinn hefð norrænna gotneskra sagna þar sem myrkar og óvægnar óbyggðirnar birta það sem innra með sögupersónum hrærist.

  Gestaritstjórar heftisins eru Eiríkur Rögnvaldsson og Sigríður Sigurjónsdóttir en aðalritstjórar þess eru Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Dagbjört Guðmundsdóttir og Sigurrós Eiðsdóttir um prófarkarlestur.

 • Ritið:2/2021. Ástarrannsóknir
  Númer 2 (2021)

  Ritið_Kápa_02_2021.png

  Undanfarin ár hefur áherslan í hug- og félagsvísindum orðið æ meir á svið tilfinninga. Hefur þetta verið nefnt „tilfinningabeygjan“ í akademískum rannsóknum (e. emotional turn). Þema þessa heftis eru tilfinningar sem kenndar er við rómantíska eða kynferðislega ást eins og hún birtist í ríkjandi orðræðu og/eða andófi gegn henni í sögulegu og samtímalegu samhengi. Heftið er ekki síst hugsað til að vekja upp þetta unga rannsóknarsvið hérlendis, en í raun má segja að það hafi ekki enn almennilega numið land þótt einn af frumkvöðlunum sé íslensk fræðikona. Greinarnar innan þema eru sex talsins. Fyrstu tvær greinarnar lýsa hinum viðtekna félagslega veruleika út frá samtímagögnum. Brynhildur Björnsdóttir og Silja Bára Ómarsdóttir fjalla um hugmyndina um rómantíska ást eins og hún birtist í vestrænni menningu frá því á fyrri hluta tuttugustu aldar og til okkar daga. Berglind Rós Magnúsdóttir gerir grein fyrir niðurstöðum eigindlegra rannsókna hennar á tilhugalífi gagnkynhneigðra kvenna sem hafa áður verið í langvarandi sambandi. Torfi H. Tulinius og Hlynur Helgason horfa til samtímalistamanna og hvernig þeir túlka ástina á ólíkan hátt. Grein Torfa rýnir í karllægan veruleika í samtímanum út frá skáldsögum Michel Houllebecq. Hlynur tekur til umfjöllunar verk íslenskrar myndlistarkonu, Kristínar Gunnlaugsdóttur, en á miðjum ferli verður athyglisverð breyting á fagurfræði hennar, þar sem áferðarfalleg verk í helgimyndastíl víkja fyrir mun grófari og kaldhæðnari verkum. Íris Ellenberger rannsakar sendibréf milli kennara Kvennaskólans í Reykjavík frá því um aldamótin 1900, en sum þeirra bera vott um sterkan ástarhug milli kvenna. Loks fjallar Sólveig Anna Bóasdóttir um umræður guðfræðinga um samkynhneigðar ástir yfir tveggja alda tímabil og baráttunni fyrir viðurkenningu kirkjunnar á þeim, bæði erlendis og hérlendis.

  Við þökkum öllum höfundum fyrir að hafa hlýtt greinakalli okkar. Mun fleiri sýndu þemanu áhuga og er líklegt að margir þeirra munu fylgja því eftir og birta greinar á öðrum vettvangi. Ástin er merkilegt viðfangsefni, ekki síst þegar hún er sett í sögulegt og félagslegt samhengi. Við erum sannfærð um að ástarrannsóknir eigi eftir að vaxa og dafna á næstu árum og hvetjum lesendur ritsins til að fylgjast grannt með.

  Greinar utan þema eru að þessu sinni tvær. Fyrri greinin er á sviði heimspeki og er eftir Gunnar Harðarson. Í stað þess að halda því fram að Descartes sé fulltrúi þess sjónarmiðs að maðurinn sé hrein hugsandi vera, óháð líkamanum, eins og margir hafa gert, kýs Gunnar að kynna til sögunnar andstæðan lestur á Descartes þar sem hin líkamlega vídd er í fyrirrúmi. Seinni greinin er eftir Hjalta Hugason en hún fjallar um breytta stöðu þjóðkirkjunnar í ljósi sögunnar.

  Gestaritstjórar heftisins eru Berglind Rós  Magnúsdóttir og Torfi H. Tulinius en aðalritstjórar þess eru Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Dagbjört Guðmundsdóttir um prófarkarlestur.

 • Ritið:1/2021. Arfleifð Freuds
  Númer 1 (2021)

  Ritið_Kápa_01_2020_ok1.png

  Árið 2019 voru 120 ár síðan Draumaráðningar Sigmunds Freud komu út á prenti og lagði ritið grunn að nýrri fræðigrein sem fjallaði um sálrænan veruleika fólks, menningar og samfélags. Allt síðan sálgreiningin náði fótfestu hefur hún verið einstaklega frjó í nálgun sinni á hverskyns viðfangsefni en einnig greinst í ýmsa skóla og hefðir og meðal annars haft umtalsverð áhrif á sviði hugvísinda. Í þessu hefti Ritsins er fjallað um hvernig unnið hefur verið úr arfleifð Freuds og sálgreiningarinnar með áherslu á heimspeki, guðfræði, kvikmyndir og bókmenntir. Þá er aðferðum og viðfangsefnum íslenskra og erlendra fræðimanna sem stuðst hafa við sálgreiningu í rannsóknum sínum gerð skil.

  Í heftinu eru birtar átta frumsamdar greinar, einn myndaþáttur og fimm nýjar þýðingar. Frumsömdu greinarnar í heftinu eru af margbreytilegum toga. Björn Þorsteinsson tekur til athugunar gagnrýni frönsku heimspekinganna Gilles Deleuze og Felix Guattari á Ödipusarlíkan Freuds, Torfi Tulinius skoðar birtingarmyndir dauðahvatarinnar í Njálu og Dagný Kristjánsdóttir ræðir m.a. hið ókennilega og úrkastið í grein um barnabókina Kóralína eftir Neil Gaiman. Þá beinir Sigrún Alba Sigurðardóttir sjónum að tráma í kvikmyndinni Andkristur eftir Lars von Trier og Guðrún Elsa Bragadóttir að ást, narsisma og skorti í kvikmynd Spike Jonze, Hún, auk þess sem Bjarni M. Bjarnason fjallar um rannsókn sem doktor Ágúst H. Bjarnason framkvæmdi á Vopnafirði sumarið 1914 á fjarskyggnigáfu Jóhannesar Jónssonar frá Ásseli, eða Drauma-Jóa. Jafnframt birtist hér grein eftir Sæunni Kjartansdóttur um tengslakenningu John Bowlbys. Í myndaþættinum fjallar Steinar Örn Erluson, annar gestaritstjóra Ritsins, um ljósmyndir af látnum sæfarendum á Íslandi á árunum 1939 til 1945.

  Þýðingar að þessu sinni eru ákaflega fjölbreytilegar. Hér birtist stutt ritgerð eftir Sigmund Freud, „Neitun“, auk þýðinga á textum eftir Juliu Kristevu, „Unglingsskáldsagan“, og Slavoj Žižek, „’Guð er dauður en hann veit það ekki’ Lacan leikur sér með Bobok“, en aðrir textar þessara höfunda hafa þegar verið þýddir á íslensku, enginn þó meira en Freud. Einnig birtast hér þýðingar á textum eftir Ann Belford Ulanov, „Ótti kristinna við sálarlífið“, og Friedrich Kittler, „Rómantík – sálgreining – kvikmynd. Um sögu tvífarans“, síðarnefnda greinin með ítarlegum inngangi þýðanda.

  Forsíðumynd Ritsins að þessu sinni er eftir Harald Jónsson og er úr seríu silkiþrykksmynda sem Haraldur nefnir Sónar (2020). Í verkunum notar listamaðurinn grunnform sónarsins en í viðtali í Fréttablaðinu 20. febrúar 2021 sagði hann um verkin: „Þetta form fór að sækja á mig en ég hef alltaf haft áhuga á gegnumlýsingu og myndbirtingu hins ósýnilega. Formið er upphaflega tómt, ég þrykki síðan með svörtum farva og veit útkomuna ekki fyrir fram. Þannig er ég í raun að skrásetja sjálft sköpunarferlið, hvert verk er einstakt og útkoman er líka ákveðið sönnunargagn.“

  Gestaritstjórar heftisins eru Marteinn Sindri Jónsson og Steinar Örn Erluson en aðalritstjórar þess eru Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Lúther Jónsson um prófarkarlestur.

 • Ritið:3/2020. Syndin
  Númer 3 (2020)

  Ritið_Kápa_032020.png

  Þema Ritsins er syndin og margvíslegar birtingarmyndir hennar. Greinarhöfundar eru af ólíkum fræðasviðum og nálgast efnið frá ýmsum sjónarhornum. Arnfríður Guðmundsdóttir fjallar um syndahugtakið í kristinni trúarhefð, frá upphafi og til samtímans, og hvernig sögulegt samhengi mótar þann skilning sem leggja skuli í hugtakið. Hjalti Hugason beinir sjónum að syndinni í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar og bendir á ólíkan skilning á hugtakinu: siðrænan og tilverufræðilegan, sem sé þó ekki að finna hjá Hallgrími. Grein Kolfinnu Jónatansdóttur er um dauðasyndirnar í Gylfaginningu, einkum þó ofdramb og mikillæti, en hún setur túlkun sína í samhengi við lærða hefð á miðöldum. Ásdís R. Magnúsdóttir fjallar um syndina sem grunnstef í Perceval eða Sögunni um gralinn sem samin var undir lok 12. aldar og bendir á líkindi verksins og Grettis sögu. Við færumst nær samtímanum með Guðrúnu Björk Guðsteinsdóttur sem skrifar um syndauppgjör í skáldsögunni Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur. Guðrún beinir sjónum að afleiðingum þess að gangast ekki við syndum sínum og þeirri siðferðislegu upplausn sem einkenndi íslenskt samfélag á tímum bankahrunsins. Í síðustu þemagreininni spyr svo Skúli Skúlason hvort syndin sé náttúruleg. Hann fjallar um mikilvægi heimsmynda og tengir umhverfisvandann við syndahugtakið þar sem maðurinn hafi sagt sig úr lögum við vistkerfi jarðarinnar. Þessari fjölbreyttu umfjöllun um birtingarmyndir syndarinnar fylgir þýðing á nokkrum brotum úr verkinu Hugsanir eftir franska stærðfræðinginn og rithöfundinn Blaise Pascal í þýðingu Ásdís R. Magnúsdóttir.

  Greinar utan þema eru að þessu sinni þrjár. Kristín Loftsdóttir fjallar um brjóstmyndasafn El Museo Canario á Karíeyjum en hún skoðar sögu nokkurra brjóstmynda sem þar er að finna og veltir meðal annars fyrir sér stöðu þeirra í samtímanum. Finnur Dellsén skrifar um traust til sérfræðinga og ræðir meðal annars hvers vegna fólk þurfi að treysta þeim, hvað felist í slíku trausti og undir hvaða kringumstæðum sé mikilvægt að fólk hugsi gagnrýnið og komist sjálft að rökstuddri niðurstöðu. Í lokagreininni leitast Ásta Kristín Benediktsdóttir við að draga fram hvernig ýmis skrif Elíasar Marar sýna þróun hans og þroska sem tvíkynhneigðs rithöfundar.

  Forsíðu Ritsins prýðir veggmynd af heilagri Önnu, móður Maríu Guðsmóður, frá Faras í Norður-Súdan. Hún leggur fingur yfir varirnar til merkis um þögn en það var gert til að bægja frá illum öflum við bænahald. Myndin fannst við uppgröft á árunum 1961–1964 í bænum Faras, nálægt landamærum Egyptalands, sem nú horfinn undir vatn og hún var ein fjölmargra veggmynda í dómkirkju frá 8. öld. Talið er að myndin sé frá 8.-9. öld og hún er varðveitt í Þjóðminjasafninu í Varsjá.

  Gestaritstjóri heftisins er Ásdís Rósa Magnúsdóttir en aðalritstjórar þess eru Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Lúther Jónsson um prófarkarlestur.

 • Ritið:2/2020. Íslenskar nútímabókmenntir
  Númer 2 (2020)

  Ritið_Kápa_022020_B.png

  Þema Ritsins að þessu sinni eru íslenskar nútímabókmenntir. Í heftinu er stefnt saman umfjöllun um bókmenntir frá því snemma á 20. öld og samtímaverkum. Fyrri hluti er helgaður Þórbergi Þórðarsyni og er í ritstjórn gestaritstjóranna Benedikts Hjartarsonar og Bergljótar Soffíu Kristjánsdóttur en þar birtast þrjár ritrýndar greinar auk tveggja þýðinga. Fyrstu tvær greinarnar eru um dulspekina í skrifum Þórbergs en undir hana heyra þau þrjú svið sem rithöfundurinn tilgreinir jafnan sérstaklega í verkum sínum: guðspeki, spíritismi og indversk speki, einkum yoga. Stefán Ágústsson fjallar um náttúrutrú og dulspeki í bókinni Steinarnir tala en Álfdís Þorleifsdóttir beinir sjónum sínum að Íslenzkum aðli og ræðir verkið ekki síst í ljósi skrifa Krishnamurtis og hugmyndarinnar um „blekkinguna“ eða maya. Aðalsteinn Eyþórsson og Bergljót Soffía Kristjánsdóttir skrifa hinsvegar um málvísindi og táknfræði Þórbergs en þau varpa ljósi á margbrotin tengsl skrifa hans við vísindakenningar samtímans. Þá tilheyra þessum hluta þemans tvær þýðingar, önnur þeirra er þýðing Jóns Bjarna Atlasonar á bókarkafla eftir Jakob von Uexküll, sem var einn af brautryðjendum svokallaðrar líftáknfræði, en hin er þýðing Kristjáns Eiríkssonar á bréfi eftir Eúgeno Lanti, sem þýtt er úr esperanto og veitir forvitnilega innsýn í mikla umrótatíma í sögu alþjóðamálsins.

  Seinni hlutinn er í ritstjórn Guðrúnar Steinþórsdóttur og Sigrúnar Margrétar Guðmundsdóttur en þar eru nýleg verk þriggja íslenskra höfunda til umfjöllunar auk þess sem samtímabókaútgáfa á Norðurlöndum er greind. Guðrún Steinþórsdóttir fjallar um minni og tráma með hliðsjón af skáldsögunni Stóra skjálfta eftir Auði Jónsdóttur. Þrjár skáldsögur Bergsveins Birgissonar, Landslag er aldrei asnalegt, Handbók um hugarfar kúa og Svar við bréfi Helgu, eru til umfjöllunar í grein Kjartans Más Ómarssonar en hann kannar þessar sögur sérstaklega til að draga fram þau höfundareinkenni sem segja má að setji mark sitt á skrif Bergsveins á fyrsta áratug þessarar aldar. Ana Stanićević veltir fyrir sér bókaútgáfu á tímum loftslagsbreytinga og spyr hvort enn sé rúm fyrir bókmenntir í sömu mynd og fyrr, en í grein sinni lítur hún til starfsemi örforlaga á Norðurlöndum. Listamannaþríleikur Gyrðis Elíassonar er til umfjöllunar í grein Auðar Aðalsteinsdóttur en þar rekur hún hvernig höfundurinn tekst á við tvær tengdar bókmenntahefðir, náttúruskrif og hlutskipti listamannsins; eða melankólíska snillingsins.

  Gestaritstjórar heftisins eru Benedikt Hjartarson og Bergljót Soffía Kristjánsdóttir en aðalritstjórar þess eru Sigrún Margrét Guðmundsdóttir og Guðrún Steinþórsdóttir. Forsíðuna prýðir teikning af Þórbergi Þórðarsyni sem birtist fyrst sem forsíðumynd á tímaritinu Speglinum í ágúst 1928. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Lúther Jónsson um prófarkarlestur.

 • Ritið 1/2020. Náttúruhvörf: Samband fólks og dýra
  Númer 1 (2020)

  Ritið_Kápa_01_2020_ok.png

  Í þessu hefti Ritsins eru vaktar upp aðkallandi spurningar er varða loftslagsbreytingar, fækkun dýrategunda, umhverfissiðfræði og sjálfbærni. Þeir þverfaglegu textar og listaverk sem birtast hér eiga það sameiginlegt að fela í sér nýstárleg sjónarhorn á viðfangsefni sem áður voru gegnsýrð hugmyndafræði mannmiðjunar. Tekin eru til gagnrýninnar umfjöllunar gamalgróin viðhorf um aðgreiningu manna og dýra og er efnið tímabært framlag til pósthúmanískrar umræðu á Íslandi. Höfundar takast hér á við flóknar sameiginlegar áskoranir og viðfangsefni sem blasa við nú á tímum mannaldar – þvert á landamæri og (dýra)tegundir. Þá er einnig fjallað um birtingarmyndir dýra í sjónrænu efni og framsetningu þeirra á söfnum og sýningum. Dýr í sínum margvíslegu myndum hafa löngum haft sterkt aðdráttarafl og heillað manninn frá upphafi vega. Þá hafa þau jafnframt valdið manneskjunni margvíslegum heilabrotum, sem vara enn um sinn, eins og dæmin í þessu hefti sýna glöggt.

  Æsa Sigurjónsdóttir fjallar  um birtingarmyndir hvala í bæði sögu og samtíma í sinni grein og varpar ljósi á vaxandi umhverfissiðfræðileg viðhorf í sjónrænni framsetningu á hvölum þar sem greina má aukna samlíðan með dýrinu. Í grein Kötlu Kjartansdóttur og Kristins Schram er fjallað um lunda og hvítabirni í samhengi frásagna og efnismenningar og hvernig táknræn merking og birtingarmyndir þessara dýra hafa mótast, til dæmis í tengslum við vaxandi ferðamennsku og umhverfismál samtímans. Edda R. H. Waage og Karl Benediktsson ræða pólitísk áhrif æðarfuglsins, gerendahæfni (e. agency) hans og það mikilvæga hlutverk sem æðarfuglinn gegndi í þróun fuglaverndar á Ísland.

  Gunnar Theodór Eggertsson fjallar um hvernig hugmyndin um „góðhestinn“ birtist í íslenskum dýrasögum og dregur fram duldar forsendur og merkingarauka sem fylgja framsetningu hesta (og annarra dýra) í slíkum sögum. Soffía Auður Birgisdóttir tekur fyrir gagnrýni Þórbergs Þórðarsonar á dýrafræði og útfærslu hans á því sem hann kallar „skemmtilega dýrafræði.“

  Í óritrýndum greinum skrifa Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson um breytilegt ástand á norðurslóðum vegna hlýnunar jarðar, hækkunar sjávarmála sem afleiðingu af bráðnun jökla og þau áhrif sem þessar breytingar hafa á líf hvítabjarna á þessu svæði. Þá skrifar Katla Kjartansdóttir um íslenska dýrasafnið, gagnmerka sögu þess og samfélagslegt hlutverk. Margslunginn texti breska heimspekingsins Timothy Mortons, Efnisleiki, leikur, í þýðingu Oddnýjar Eirar Ævarsdóttur, vekur athygli á hinum þéttofnu þráðum sem víða liggja í samlífi mannskepna, dýra og annarra lífvera á tímum mannaldar.

  Fyrri greinin sem hér birtist utan þema er eftir heimspekinginn Nönnu Hlín Halldórsdóttur. Í henni er spurningin „Tekurðu D-vítamín?“, sem langveikt fólk fær reglulega, skoðuð sem birtingarmynd einstaklingsvæðingar ábyrgðar í samfélögum sem eru mótuð af nýfrjálshyggju. Seinni greinin utan þema er eftir bókmennta- og kvikmyndafræðinginn Björn Þór Vilhjálmsson sem skrifar um Silfurtúnglið eftir Halldór Laxness. Hann rekur viðtökur leikverksins og ræðir í því samhengi um gjánna á milli þjóðskáldsins og leikskáldsins – sem gætu allt eins verið tveir ólíkir höfundar – er hann setur meðal annars í samhengi við tiltekna textafræðilega stýriþætti leikritsins og viðnám þess gegn vissum skilgreiningum og flokkunarkerfum.

  Þemaritstjórar heftisins eru þau Katla Kjartansdóttir, doktorsnemi í safnafræði og Kristinn Schram, dósent í þjóðfræði en aðalritstjórar eru Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir. Forsíðuna prýðir verk eftir Edward Fuglø. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Lúther Jónsson um prófarkarlestur.

 • Ritið 3/2019: Umhverfishugvísindi og samtími
  Númer 3 (2019)

  Ritið_Kápa_03_2019-1.png

  Í þessu hefti Ritsins þar sem umfjöllunarefnið er umhverfishugvísindi og samtími er komið víða við og undirstrika þær rannsóknir sem hér birtast mikilvægi hugvísinda og gagnsemi þeirra nú á tímum. Greinarhöfundar koma úr ólíkum áttum og eru greinarnar sumar hverjar þverfaglegar enda viðfangsefnið til þess fallið. Hér er fjallað um náttúruna og umhverfi á fjölbreyttan hátt; náttúruvernd, náttúruupplifun og gildi náttúrunnar, landslag, eldfjöll og áhrif náttúrunnar á okkur mennina, svo eitthvað sé nefnt.

  Shauna Laurel Jones listfræðingur og umhverfis- og auðlindafræðingur og landfræðingarnir Edda R. H. Waage og Karl Benediktsson fjalla í fyrstu greininni um friðun álftar á Íslandi og árekstra hennar og kornbænda. Unnur Birna Karlsdóttir sagnfræðingur ræðir sýn tveggja náttúruunnenda á miðhálendið og hvernig sú sýn birtist í umræðu um stofnun miðhálendisþjóðgarðs á meðan heimspekingurinn Jón Ásgeir Kalmansson fjallar um siðferðilega afstöðu okkar er varðar gildi náttúrunnar og huglægar forsendur sem búa þar að baki. Landfræðingurinn Edda R. H. Waage og heimspekingurinn Guðbjörg R. Jóhannesdóttir fjalla um þverfaglega samvinnu sína við þróun á aðferðafræði í rannsóknum á mati á landslagi. Ein óritrýnd grein er í heftinu en það er ferðasaga Tinnu Gunnarsdóttur prófessors í vöruhönnun af rannsóknarleiðangri til Japan. Tveir bókmenntafræðingar reka lestina í þemahlutanum, Harpa Rún Kristjánsdóttir og Atli Antonsson birta hér bókmenntagreiningar á ólíkum samtímabókum. Nánari umfjöllun um þemagreinarnar má finna í inngangi að þema.

  Fyrri greinin sem hér birtist utan þema er eftir bókmenntafræðingana Guðrúnu Steinþórsdóttur og Bergljótu Kristjánsdóttur og fjalla þær um minjagripi, ferðamennsku og sjálfsmynd þjóðar, ekki síst um lundann sem birtist víða. Í seinni greininni skoðar Ásdís Rósa Magnúsdóttir bókmenntafræðingur þýðingu Hannesar Finnssonar biskups á frönsku ævintýri en þýðing Hannesar fylgir greininni.

  Þemaritstjórar þessa heftis eru þau Guðbjörg R. Jóhannesdóttir heimspekingur og Þorvarður Árnason umhverfis- og náttúrufræðingur en aðalritstjóri þess er Rannveig Sverrisdóttir. Forsíðuna prýðir mynd Þorvarðar Árnasonar af Hoffellsjökli. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Lúther Jónsson um prófarkarlestur.

 • Ritið 2/2019 - Íslenskar kvikmyndir
  Árgangur 19 Númer 2 (2019)

  Íslenskar kvikmyndir er þema þessa heftis Ritsins og birtast um efnið fjórar ritrýndar greinar, þrjár sögulegar og ein þar sem fjallað er um ákveðna bíómynd. Kvikmyndafræðingarnir og nafnarnir Björn Ægir Norðfjörð og Björn Þór Vilhjálmsson skrifa hér sitthvora greinina, sú fyrri fjallar um sögu íslenskra kvikmynda frá upphafi sýninga, sé seinni um ritskoðun kvikmynda á Íslandi eða bannlistann. Tvær greinar í heftinu eru eftir doktorsnema, Gunnar Tómas Kristófersson fjallar um upphaf kvikmyndaaldar hér á landi en Sigrún Margrét Guðmundsdóttir um fyrstu íslensku hrollvekjuna í fullri lengd, Húsið. Nánar má lesa um greinarnar í inngangi þemaritstjórans, Björns Þórs Vilhjálmssonar. Innan þemans er einnig að finna tvær þýðingar, önnur þeirra er þýðing á grein eftir Tom Gunning um árbíóið en hin er grein Andrews D. Higsons um þjóðarbíó. Þýðendurnir, Björn Þór Vilhjálmsson og Kjartan Már Ómarsson, fjalla um tilurð þýðinganna í inngangi að þeim.

  Þrjár greinar birtast hér einnig utan þema. Fyrst er hér seinni grein Hjalta Hugasonar guðfræðings um áhrif Lúthers og siðbótarinnar á Íslandi en fyrri greinin birtist í Ritinu 1/2019. Bókmenntafræðineminn Xinyu Zhang fjallar í sinni grein um sagnritunarsjálfsögur og skáldsöguna Hundadaga eftir Einar Má Guðmundsson. Að lokum birtist hér grein Davíðs Kristinssonar heimspekings um fræðamörk eða markalínur milli heimspeki og grannvísinda hennar í rannsóknum á hruninu.

  Þemaritstjóri þessa heftis er Björn Þór Vilhjálmsson bókmennta- og kvikmyndafræðingur en aðalritstjóri þess er Rannveig Sverrisdóttir. Forsíðuna prýðir mynd úr fyrstu íslensku hrollvekjunni, Húsinu, með góðfúslegu leyfi Egils Eðvarssonar. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Lúther Jónsson um prófarkarlestur.

  Ritið_forsida_Page_001.png

 • Ritið 1/2019 - Kynbundið ofbeldi II
  Árgangur 19 Númer 1 (2019)

  Öðru sinni beinir Ritið sjónum að kynbundnu ofbeldi og sýnir sá fjöldi greina sem hér birtist hversu þörf og víðtæk sú umræða er. Í þessu hefti birtast alls átta greinar um efnið, þar af sex ritrýndar en þær óritrýndu eru þýðingar á textum tveggja skálda, þeirra Auðar Övu Ólafsdóttur og Nailu Zahan Ana, sem fluttir voru á ráðstefnu um sársauka árið 2017.  Ljóðið „Næturgestur“ eftir Öldu Björk Valdimarsdóttur prýðir bæði forsíðuna og er birt í heftinu sjálfu. Ritrýndu greinarnar ber víða niður, í þeirri fyrstu fjalla kynjafræðingarnir Finnborg Salome Steinþórsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir um birtingarmyndir nauðgunarmenningar á Íslandi. Fjórir textar eru eftir doktorsnema í bókmenntum, greinar þeirra Guðrúnar Steinþórsdóttur um Dísusögu, Kjartans Más Ómarssonar um ljóðabálk eftir Sjón, Sigrúnar Margrétar Guðmundsdóttur um kvikmyndina Rökkur og Hauks Ingvarssonar um rithöfundinn Guðmund Daníelsson og áhrif Williams Faulkners á hann. Síðast en ekki síst birtist hér grein Dagnýjar Kristjánsdóttur bókmenntafræðings um sjálfsskaða.

  Alls fjórar ritrýndar greinar falla utan þema. Grein Margrétar Guðmundsdóttur málfræðings fjallar um næmiskeið í máltöku og þar er reyndar, eins og í þemagreinunum, ofbeldi einnig til umfjöllunar þó ekki sé það kynbundið. Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur skrifar um skáldskaparheim Elísabetar K. Jökulsdóttur, Hjalti Hugason guðfræðingur birtir hér fyrri grein sína af tveimur um áhrif Lúthers og siðbótarinnar á Íslandi og að síðustu fjallar Bergljót S. Kristjánsdóttir bókmenntafræðingur um samspil Tourette og ljóðlistar. Öllum textum heftisins eru gerð betri skil í inngangi ritstjóra, „fræ / í skál“.

  Þemaritstjórar heftisins eru þær Bergljót S. Kristjánsdóttir, Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir en aðalritstjóri þess er Rannveig Sverrisdóttir. Forsíðuna prýðir eins og áður sagði ljóð Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur í grafískri hönnun Hrefnu Sigurðardóttur. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Lúther Jónsson um prófarkarlestur.

  Ritið_Kápa_01_2019_11062019_II.jpg

 • Ritið 3/2018 - Kynbundið ofbeldi
  Árgangur 18 Númer 3 (2018)

  Í þessu þriðja og síðasta hefti Ritsins árið 2018 er sjónum beint að kynbundnu ofbeldi. Það ofbeldi á sér ýmsar birtingarmyndir og af nógu að taka vilji menn skoða það með fræðilegum augum eins og skýrt kemur fram í inngangi þemaritstjóra heftisins.

  Ritrýndu þemagreinarnar eru sex talsins og sjónarhornin næstum jafnmörg.  Greinar þeirra Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur og Guðna Elíssonar annars vegar og Björns Þórs Vilhjálmssonar hins vegar fjalla um kynbundið ofbeldi í bókmenntum, Ingibjörg Eyþórsdóttir tekur fyrir sagnadansa og Guðrún Þórhallsdóttir rýnir í sögulega þróun orðanna gleðimaður og gleðikona. Þórhildur Sæmundsdóttir og Þorgerður Einarsdóttir orðaræðugreina niðurstöður Hæstaréttar en Rannveig Sigurvinsdóttir skrifar um birtingarmyndir ofbeldis í frásögnum á samfélagsmiðlum. Tvær óritrýndar greinar eru einnig innan þemans, textar tveggja rithöfunda.  Sá íslenski er eftir Hallgrím Helgason en skrif Margaret Atwood birtast hér í þýðingu Aðalsteins Eyþórssonar.

  Að þessu sinni eru í heftinu tvær ritrýndar greinar sem falla utan þemans, auk frumsaminna texta. Báðar greinarnar fjalla um merka Íslendinga á sviði bókmennta og lista. Hlynur Helgason listfræðingur skrifar um viðtökur á verkum Þórarins B. Þorlákssonar en Þórarinn er talinn meðal frumherja íslenskrar myndlistar. Hlynur fer í þessu samhengi yfir sögulega þróun íslenskra listfræða og viðhorfa til myndlistar á Íslandi.

  Rithöfundurinn Jakobína Sigurðardóttir fæddist árið 1918 og hefði því átt aldarafmæli um þessar mundir. Af því tilefni ritar Ástráður Eysteinsson prófessor í bókmenntafræði grein þar sem hann fer yfir höfundarverk Jakobínu. Með endurlestri greinir Ástráður valda þætti úr verkum Jakobínu og setur þau í samhengi við þjóðfélagsbreytingar á Íslandi. Að lokum birtast, af þessu sama tilefni, frumsamdir textar tveggja ritlistarnema, þeirra Karítasar Hrundar Pálsdóttur og Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur en textar þeirra eru innblásnir af verkum Jakobínu.

  Þemaritstjórar heftisins eru þær Bergljót S. Kristjánsdóttir, Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir en aðalritstjóri þess er Rannveig Sverrisdóttir. Forsíðumyndin er eftir Ástu Sigurðardóttur. Um umbrot sá Sverrir Sveinsson og Lúther Jónsson um prófarkarlestur.

 • Á Reykjaville, sýningu fransk-íslenska listamannsins Serge Comte á Listastofunni við Hringbraut, dagana 12.-26. apríl 2018, blöstu allar helstu höfuðborgir veraldar við í verkinu Vatnið, Le Lac, sem þakti gólfflöt rýmisins. Serge hafði skannað götukort fjölmargra borga í tölvu, fært þær úr stað og raðað þeim upp hver við hlið annarrar. Saman mynduðu borgarmyndirnar sveig utan um opið eða autt svæði sem var í senn aðþrengt og víðáttumikið – eins konar heimshaf sem tengdi þær og aðskildi. Niðurröðun borganna virtist tilviljanakennd og heimsborgir eins og Manila og London lágu þannig hlið við hlið. Á forsíðu Ritsins að þessu sinni má sjá brot af þessu listaverki. Ritið 2/2018 - Undur og ógnir borgarsamfélagsins
  Árgangur 18 Númer 2 (2018)

  Á Reykjaville, sýningu fransk-íslenska listamannsins Serge Comte á Listastofunni við Hringbraut, dagana 12.-26. apríl 2018, blöstu allar helstu höfuðborgir veraldar við í verkinu Vatnið, Le Lac, sem þakti gólfflöt rýmisins. Serge hafði skannað götukort fjölmargra borga í tölvu, fært þær úr stað og raðað þeim upp hver við hlið annarrar. Saman mynduðu borgarmyndirnar sveig utan um opið eða autt svæði sem var í senn aðþrengt og víðáttumikið – eins konar heimshaf sem tengdi þær og aðskildi. Niðurröðun borganna virtist tilviljanakennd og heimsborgir eins og Manila og London lágu þannig hlið við hlið. Á forsíðu Ritsins að þessu sinni má sjá brot af þessu listaverki.

  Þema þessa annars heftis Ritsins 2018 eru borgir í víðu samhengi eða „undur og ógnir borgarsamfélagsins“ eins og titillinn hljómar. Hér birtast fjórar ritrýndar greinar sem á ólíkan hátt fjalla um borgir og borgarsamfélög og ritar Hólmfríður Garðarsdóttir inngang að þeim. Í grein sinni „Hlið við hlið. Tapað-fundið í framandi borgum“ fjallar Ástráður Eysteinsson um birtingarmyndir borgarheimsins í bókmenntum, tengsl Reykjavíkur og Kaupmannahafnar og borgir í verkum Kafka. Í „„Varla er til ófrýniligri sjón...“ Borgarlýsingar í ferðaskrifum Tómasar Sæmundssonar“ gerir Marion Lerner skrif Fjölnismannsins um borgir að umfjöllunarefni sínu og skoðar sýn hans í samhengi við seinni tíma þróun á höfuðborg Íslands. Í greininni „Óræð inngrip og pólitísk orðræða í borginni. Listaverkið í almannarými og áhrif útisýninga í Reykjavík“ eftir Æsu Sigurjónsdóttur er sjónum beint að útisýningum og virkni lista í almannarými, þá helst Reykjavík og sýnt fram á hvernig myndlist í opinberu rými getur haft gagnrýnin áhrif og vakið pólitíska listumræðu í samfélaginu. Að lokum birtist grein Kristínar Maríu Kristinsdóttur, „Líkami drengsins sem aldrei var til. Um samband samfélags og líkama í óreiðuástandi spænsku veikinnar í Mánasteini eftir Sjón“ þar sem líkamsorðræða sögunnar er greind með hliðsjón af kenningum er lúta að líkamanum sem menningarlegri smíð.       

  Tvær greinar í heftinu falla utan þemans. Bergljót Soffía Kristjánsdóttir fjallar um fyrsta hluta ljóðabókarinnar Við sem erum blind og nafnlaus eftir Öldu Björk Vilhjálmsdóttur í grein sinni „Orðin laðast að henni / eins og skortur“. Ljóðin, fimm talsins, eru greind með nálestri og tengd við fræðiefni úr ýmsum áttum, m.a. hugræn fræði. Greiningin varpar ljósi á að í ljóðunum felst skarpur gagnrýnisbroddur og sýnir fram á skírskotanir til margs í umhverfi okkar og samtíma; umhverfisvár, stöðu kvenna og fleira.

  Í greininni „„Ég elti auðinn til Evrópu“: Sögur af fólki á flótta, innflytjendum og „ólöglegum“ einstaklingum“ fjallar Kristín Loftsdóttir um flókið og aðkallandi efni, sem segja má að sé eitt helsta hitamál og úrlausnarefni samtímans, flóttamannavandann. Kristín dregur fram reynsluheim og viðhorf fólks sem oftast er fjallað um sem nafnlausan fjölda og gerir að umtalsefni hvernig flokkun þess í náttúrugerða hópa getur falið í sér afmennskun og einföldun á aðstæðum þeirra. Efnið er bæði sett í alþjóðlegt og íslenskt samhengi.

  Enn fremur birtast í þessu hefti þýðingar, sem venju samkvæmt tengjast þemanu. Fyrsta ber að telja þýðingu Ásdísar Rósu Magnúsdóttur á textabrotum úr Dagbók Parísarbúa. Um er að ræða dagbókarfærslur frá tímum hundrað ára stríðsins svokallaða. Óþekktur höfundur gerir grein fyrir aðstæðum íbúa borgarinnar á miklum umbrotatímum. Hann gerir grein fyrir þeim erfiðleikum sem óöld og stríðsátök hafa í för með sér fyrir almenna borgara, segir frá bardögum, mannfalli og áhlaupum, og dregur upp myndir af daglegu lífi borgarbúa. Skortur á nauðsynjavörum og þrálátar áhyggjur af hækkandi kostnaði neysluvara mynda eins konar leiðarstef í skrifum höfundar.

  Einnig er í heftinu að finna þýðingar á kvæði Vilhjálms frá Skáholti „Ó borg, mín borg“. Kvæðið varð einskonar einkennissöngur Reykjavíkur um miðja 20. öld þegar Haukur Morthens gerði það ódauðlegt í flutningi sínum. Fyrst birtist frumtextinn og því næst þýðingarnar hver á fætur annarri í stafrófsröð, á dönsku, ensku, frönsku, ítölsku, rússnesku, spænsku og þýsku, og að lokum á íslensku táknmáli en vegna ólíks miðlunarháttar táknmála er sú þýðing á myndbandi.  Rafræn útgáfa Ritsins gerir okkur kleift að birta í fyrsta sinn „texta“ sem miðlað er á þennan hátt.

  Þemaritstjóri heftisins er Hólmfríður Garðarsdóttir en aðalritstjóri þess er Rannveig Sverrisdóttir. Sverrir Sveinsson sá um umbrot og Lúther Jónsson um prófarkarlestur. Myndband með táknmálsþýðingu á ljóði er unnið af Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Kápumyndin er eins og fyrr segir eftir listamanninn Serge Comte.

 • Ritið 1/2018 - Lög og bókmenntir
  Árgangur 18 Númer 1 (2018)

  Í þessu fyrsta hefti Ritsins árið 2018 er fjallað um lög og bókmenntir en heimar bókmennta og skáldskapar geta skarast margvíslega við lög og rétt. Í heftinu eru sex þemagreinar, þar af fjórar frumsamdar. Gunnar Karlsson sagnfræðingur fjallar um lög, siðareglur og bókmenntatexta frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar sem snerta annars vegar á eignarrétti höfunda á eigin textum og hins vegar þeim hömlum sem tjáningu miðaldaskálda voru settar. Lára Magnúsardóttir sagnfræðingur túlkar afmarkaða kafla í Árna sögu biskups í ljósi þeirra afdrifaríku pólitísku breytinga sem urðu hér á landi á síðari hluta þrettándu aldar með norsku konungsvaldi og vaxandi andlegu valdi miðaldakirkjunnar.

  Einar Kári Jóhannsson bókmenntafræðingur greinir skáldsögurnar Kötu eftir Steinar Braga og Gott fólk eftir Val Grettisson í ljósi hugmynda fræðimanna um söguleg tengsl hefnda og réttarfars. Guðrún Baldvinsdóttir og Sólveig Ásta Sigurðardóttir bókmenntafræðingar skrifa aftur á móti um það hvernig opinberar umræður um skáldsöguna Konan við 1000° eftir Hallgrím Helgason og sjálfsævisöguna Útlagann eftir Jón Gnarr tengdust lögum um tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs, sem og almennari viðhorfum fólks til þessara efna.

  Þá er birt íslensk þýðing á nýlegri grein eftir bandaríska  lögfræðinginn og sagnfræðinginn William Miller þar sem greint er hvernig lykilpersónur úr Egils sögu, Njáls sögu og Sturlu sögu beita ógnandi framkomu og hótunum í samskiptum sín á milli. Hin þýdda greinin er eftir tvo danska fræðimenn, bókmenntafræðinginn Karen-Margrethe Simonsen og lögfræðinginn Ditlev Tamm. Þau fjalla um söguna Præsten i Vejlbye (Vaðlaklerk) eftir danska nítjándu aldar skáldið Steen Steensen Blicher en hún byggði á þekktu sakamáli frá fyrri hluta sautjándu aldar þar sem danskur prestur var ákærður og dæmdur fyrir að hafa myrt vinnumann sinn.

  Auk þemagreinanna birtast í þessu hefti grein Hjalta Hugasonar um siðaskiptarannsóknir og grein Guðrúnar Steinþórsdóttur um upplifanir fólks af lestri texta eftir Vigdísi Grímsdóttur. Ritið kemur nú í fyrsta sinn út í rafrænni útgáfu og þar með opnum aðgangi.

  Þemaritstjórar heftisins eru þau Jón Karl Helgason og Lára Magnúsardóttir en aðalritstjóri þess er Rannveig Sverrisdóttir. Sverrir Sveinsson sá að vanda um umbrot og Lúther Jónsson um prófarkalestur. Kápumyndin er eftir myndlistarkonuna Katrínu Helenu Jónsdóttur og sýnir réttlætisgyðjuna leggja bókmenntir á vogarskálarnar.

  https://doi.org/10.33112/ritid.18.1