Um tilurð hnatta og handsaumaðra útgáfna

Stærstu spurningarnar og minnstu forlögin

  • Ana Stanićević
Efnisorð: örforlög, Norðurlönd, mannöld, valsældarhyggja, jaðartexti

Abstract

Á mannöld (e. anthropocene), þegar loftslagsbreytingar af mannavöldum ógna framtíð okkar og boða endalok þeirrar heimsmyndar sem við þekkjum, vaknar óhjákvæmilega sú spurning hvort pláss sé fyrir bókmenntir, eins og við höfum þekkt þær. Fyrstu tveir áratugir tuttugustu og fyrstu aldar hafa einkennst af æ fleiri örforlögum sem fara gegn straumnum, en starfsemi þeirra grundvallast á breyttu viðhorfi til bókmennta, bókaútgáfu og bókarinnar sem slíkrar. Þau vinna út frá hefð framúrstefnunnar og stefna að því að umbylta ríkjandi fagurfræði og menningarstarfsemi. Þær breytingar sem verða á bókmenntavettvanginum með tilkomu örforlaga fela í sér áherslur sem lagðar eru á: bókverk, takmarkað upplag, tilraunakennd form og fagurfræði, stefnumarkandi texta og gjörninga og loks annars konar dreifingu verka. Þessi stefnubreyting á menningarvettvanginum er í takt við svokallaða valsældarhyggju (e. alternative hedonism) sem einkennist af aukinni vistvitund og felur í sér að einstaklingur finnur nautn í því að neyta minna og á annan hátt. Ég mun leitast við að sýna fram á hvernig starfsemi örforlaga tengist gagnrýni slíkrar valsældarhyggju á kapítalisma og hvernig hún er ein athyglisverðasta birtingarmynd nýrrar umhverfisverndarorðræðu í bókmenntum Norðurlanda.

Downloads

Download data is not yet available.

Author Biography

Ana Stanićević

Doktorsnemi í menningarfræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Útgefið
2020-09-08