Unglingsskáldsagan. Að skrifa unglingsárin

Eftir Juliu Kristeva

  • Ásdís Rósa Magnúsdóttir

Abstract

Julia Kristeva er einn af helstu hugsuðum póststrúktúralisma og afbyggingar og er þekkt fyrir skrif sín á sviði sálgreiningar, málvísinda og bókmennta. Hún fæddist árið 1941 í Búlgaríu og lagði stund á málvísindi við Háskólann í Sofiu áður en flutti sig um set til Parísar árið 1966. Þar fór hún í doktorsnám í bókmenntum og málvísindum sem hún lauk með ritgerð um 15. aldar rithöfundinn Antoine de La Salle og skáldsögu hans, Le Petit Jehan de Saintré. Í París kynntist hún fljótt fjölmörgum fræðimönnum á borð við Michel Foucault, Émile Benveniste, Lucien Goldmann, Roland Barthes, Claude Lévi-Strauss, Jacques Derrida, Philippe Sollers o.fl. og tók þátt í ritstjórn tímaritsins Tel Quel sem upphaflega var ætlað að fjalla um nýja og róttæka strauma í bókmenntum og menningu en lét sig einnig varða stjórnmál, ekki síst maóisma, um nokkurt skeið.

Að námi loknu fékk hún stöðu við Diderot-háskólann í París (Paris VII) en eftir að hafa gengist undir sálgreiningu á árunum 1974-1979 hjá André Green fór hún sjálf einnig að starfa sem sálgreinandi. Í æðri doktorsritgerð sinni, La Révolution du langage poétique (Bylting í tungumáli skáldskaparins, 1974) beitti Kristeva kenningum sálgreiningarinnar á tungumál og bókmenntir. Þar fjallar hún um tvö svið tungumálsins: hið táknræna svið og hið semíótíska svið sem mynda andstöðu hvort við annað. Sjálfsveran verður til í tungumálinu en þar eiga sér stað átök sviðanna tveggja. Semíótíska sviðið tengist líkama sjálfsverunnar, hvötunum og móðurinni; það verður til á undan tungumálinu en er því til grundvallar. Táknræna sviðið er hins vegar svið tungumálsins, málfræði, setningaskipanar og samfélagsins. Forsenda þess er bæling hins sviðsins sem liggur dýpra en gerir þó vart við sig á ýmsan hátt, t.d. í listrænni sköpun eða meðferð tungumálsins, mismæli, þögnum og stílbrögðum.[1] 

Julia Kristeva hefur þróað og sett fram hugmyndir sínar og kenningar í fjölmörgum ritum og útgefin verk hennar – fræðirit, skáldsögur, greinar og greinasöfn – skipta tugum. Greinin sem hér er þýdd, „Unglingsskáldsagan“ eða „Le roman adolescent“ kom fyrst út í tímaritinu Adolescence árið 1986 en var svo endurútgefin árið 1993 í greinasafninu Les nouvelles maladies de l‘âme. Hér fléttar Kristeva saman umfjöllun um bókmenntir og sálgreiningu og skoðar tengslin milli skáldsagnaritunar og unglingsáranna. Unglingurinn í hennar skrifum vísar ekki til ákveðins aldurskeiðs heldur til þess sem hún kallar opna sálræna gerð eða structure psychique ouverte. Unglingsgerðin opnar sig fyrir hinu bælda og í greininni bendir Kristeva á tengsl hennar við skáldsagnaskrif og tvíræðni með því að taka dæmi úr ýmsum skáldsögum, m.a. viðfangsefni fyrri doktorsritgerðar sinnar en einnig verkum eftir þekktari höfunda, s.s. Rousseau og Dostojevskí.

[1]        Ítarlegri kynningu á Juliu Kristevu má finna í inngangi Dagnýjar Kristjánsdóttur „Ástin og listin gegn þunglyndinu“ í íslenskri þýðingu ritsins Soleil noir : Dépression et mélancolie (París: Éditions Gallimard, 1987). Svört sól: Geðdeyfð og þunglyndi, Ólöf Pétursdóttir þýddi, Reykjavík: Háskólaútgáfan, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2008, bls. 13–45. Einnig má benda á þýðingu Garðars Baldvinssonar á „Le mot, le dialogue et le roman“ (Σηµειωτικη. [Semeiotike] Recherches pour une sémanalyse, París: Éditions Seuil, 1969) sem birtist undir heitinu „Orð, tvíröddun og skáldsaga“ í Spor í bókmenntafræði 20. aldar: frá Shklovskíj til Foucault, ritstjórn: Garðar Baldvinsson, Kristín Birgisdóttir, Kristín Viðarsdóttir, Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun, 1991, bls. 93–128.

Downloads

Download data is not yet available.

Author Biography

Ásdís Rósa Magnúsdóttir

Prófessor í frönsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands.

Útgefið
2021-05-07