Við bjuggum það til sjálf
Um uppruna og þróun íslensks táknmáls
Abstract
Greinin, sem hér birtist fjallar um uppruna og þróun íslensks táknmáls (ÍTM) og er sérstök áhersla lögð á að skoða hvort upprunans sé að leita í dönsku táknmáli. Rannsóknin er unnin með eigindlegum aðferðum innan málvísindalegrar mannfræði. Gengið er út frá því að notkun tungumáls sé félagsvirkni og að döff samfélag sé nauðsynlegt til þess að táknmál þróist. Með sögulegum gögnum um skólagöngu og búsetu og viðtölum sem tekin eru á táknmáli um tilurð málsins og þróun þess er sögð saga döff samfélags og gerð grein fyrir uppruna íslensks táknmáls.
Í fræðilegri umfjöllun og rannsóknum innan táknmálsmálsvísinda hefur hingað til verið gert ráð fyrir að íslenskt táknmál (ÍTM) tilheyri fjölskyldu danska táknmálsins (DTS. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að ályktanir um að íslenskt táknmál sé dótturmál dansks táknmáls séu ekki á rökum reistar. Í greininni er sett fram fræðileg sýn á sögu íslensks táknmáls sem getur haft áhrif á skilning okkar á málsögu táknmála og þróun og tengsl táknmála. Á því tímabili sem hér er til umfjöllunar byrjaði nýtt mál að minnsta kosti þrisvar að þróast. Málið hefur því stöðugt verið í útrýmingarhættu og verið háð afskiptum heyrandi fólks sem mótast hafa af vankunnáttu og skilningsleysi.