Sálmabókarsköp
Guðsmóðir, safnaðarsöngur og kirkjulist Kristínar Gunnlaugsdóttur
Abstract
Sálmabók íslensku kirkjunnar kom út árið 2022 og leysti af hólmi samnefnda sálmabók frá árinu 1972. Í þessari grein verður rýnt í myndmál sálmabókarinnar og spurt hvar finna megi merki um móðurlíkamann, hvernig forn tákn Maríu séu notuð í sálmabókinni og hvers konar kynhlutverk þyki sæma kirkjulist og safnaðarsöng í samtímanum. Á síðustu áratugum hafa áhrifamestu Maríutúlkanir á Íslandi sprottið fram í myndlist Kristínar Gunnlaugsdóttur. Umfjöllunin í greininni einskorðast við þau verk Kristínar sem flokka má sem kirkjulist, það er listaverk sem staðsett eru í kirkjum, kapellum og helgum stöðum þar sem fjölbreytt kirkjustarf fer fram. Með því að tengja saman „sálmabók“ og „sköp“ í titli greinar nýtir greinin orðaleik Kristínar og kannar hvers konar sköpum sé miðlað í sálmabókinni og hvaða kynhlutverk liggi þar að baki. Í orðaleiknum felst einnig sú áhersla að sálmabók sé ritstýrt sköpunarverk með kynjaðan boðskap til síns samtíma.