Hán Grýla?

  • Katelin Marit Parsons
Efnisorð: Grýla, Grýluljóð, kynseginleiki, kyn á árnýöld, íslenskur kveðskapur 17. aldar

Abstract

Sautjánda öldin er mikilvægt skeið í mótun persónunnar Grýlu en það er fyrst á þessum tíma sem íslensk skáld fara að yrkja Grýlukvæði um ferðir óvættarinnar um landið. Kynseginleiki Grýlu er í brennidepli en greinin tekur upp þráðinn frá grein eftir Yelenu Sesselju Helgadóttur sem færir rök fyrir því að Grýla gæti hafa verið karlkyns vera á miðöldum sem þekktist víðar á Norður-Atlantshafssvæðinu en breytti um kyn á Íslandi. Grýlukvæði 17. aldar renna stoðum undir kenninguna um að kyn Grýlu hafi verið að einhverju leyti flæðandi. Hegðun persónunnar á 17. öld er karllægri og mun minni áhersla er lögð á móðurhlutverk hennar í elstu Grýlukvæðunum en í yngri skrifum. Túlkun Grýluljóða á Grýlu sem „tvítólaðri“ stendur þó upp úr enda afar sjaldgæft að finna eins ótvíræð dæmi frá árnýöld um veru sem er utan kynjatvíhyggjunnar. Rætt er um siðferðislega glæpavæðingu hinseginleika og kynseginleika í Evrópu á árnýöld en þráhyggja við að skilgreina líkamleg og andleg endamörk kynjanna er að mörgu leyti arftaki þess í dag.

Flest skáld sem yrkja (eða sem eru eignuð) Grýlukvæði á 17. öld og byrjun þeirrar 18. koma úr röðum presta, meðal annars Bjarni Gissurarson í Þingmúla í Skriðdal (1621–1712) sem hefur verið bendlaður við Grýluljóð. Gagnrýnisraddir um skaðleg áhrif Grýlutrúar á börnum heyrast þó einnig úr þeim búðum og fara vaxandi á 18. öld þegar Grýlutrú er í auknu mæli tengd við hjátrú kerlinga sem miðla sögum um óvættir til barna. Sjónum er þannig beint að flóknum þætti kirkjunnar á 17. og 18. öld í að skapa þá Grýlu sem við þekkjum í dag. Jafnvel þótt þessi kveðskapur teljist ekki trúarlegur í neinum skilningi liggur ljóst fyrir að skopskyn skáldprestanna styður markmið þeirra um að efla guðrækni leikmanna og sér í lagi barna. Grýla og hennar hyski hafa skýran félagslegan tilgang í Grýlukvæðum árnýaldar sem andstæðingar trúarmenningar en sem „andprestur“ gegnir hún öfugu eftirlitshlutverki í samfélaginu. Því er athyglisvert að sjá að kynjun Grýlu á 21. öld er að mörgu leyti sterkari en á 17. öld þegar ákveðið rými virðist enn vera til staðar fyrir kynóræðni óvætta.

Downloads

Download data is not yet available.

Author Biography

Katelin Marit Parsons

Aðjunkt og nýdoktor við Íslensku- og menningardeild.

Útgefið
2023-09-20