Anna Schiöth og Engel Jensen

Framsæknar konur og frumkvöðlar í ljósmyndun á Íslandi

  • Sigrún Alba Sigurðardóttir
Efnisorð: ljósmyndasaga, kvennasaga, atvinnusaga, 19. öld, Anna Schiöth, Engel Jensen

Abstract

Ljósmyndararnir Anna Schiöth (1846–1921) og Engel Jensen (1877–1963) voru, ásamt Nicoline Weywadt, þær konur sem lengst störfuðu í faginu á Íslandi á 19. öld. Þrátt fyrir að konur hafi aðeins verið rúmlega 17% starfandi ljósmyndara á Íslandi á seinni hluta 19. aldar var ljósmyndun ein af fáum starfsgreinum þar sem konur gátu haslað sér völl og nutu viðurkenningar. Líf þeirra Önnu og Engel fléttaðist saman með ýmsum hætti og í greininni eru leiddar líkur að því að Anna hafi haft afgerandi áhrif á að Engel lagði ljósmyndun fyrir sig. Á sinni tíð voru Anna og Engel áhugaverðir og viðurkenndir ljósmyndarar en á fræðilegum vettvangi hefur lítið verið fjallað um þátt kvenna í ljósmyndun á Íslandi fyrir aldamótin 1900.

Ljósmyndir Önnu Schiöth eru nokkuð þekktar og hafa birst í ýmsum yfirlitsritum og bókum en verk Engel Jensen eru minna þekkt. Í greininni er varpað ljósi á fjölbreytt viðfangsefni Önnu og Engel sem ljósmyndara og starf þeirra og lífshlaup skoðað í samhengi við bæði ljósmyndasögu og atvinnusögu kvenna af borgarastétt. Anna og Engel voru lifandi dæmi um að konur af borgarastétt gátu farið aðrar leiðir í lífinu en að helga sig heimili, eiginmanni og börnum, þær gátu líka hlúð að eigin starfsframa, þroskað sig í starfi og aflað tekna. Þannig ruddu Anna og Engel brautina fyrir þær sem á eftir komu í faginu og settu mark sitt á ljósmyndasögu Íslands.

Downloads

Download data is not yet available.

Author Biography

Sigrún Alba Sigurðardóttir

Sjálfstætt starfandi fræðimaður og doktorsnemi við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands.

Útgefið
2023-09-20