Íslandsvísur og viðtökur þeirra

Frá Guðmundi Magnússyni til Jóns Trausta

  • Sveinn Yngvi Egilsson
Efnisorð: Jón Trausti, ritdómar, viðtökur, tímarit, orðræða, ættjarðarljóð, dulnefni

Abstract

Íslandsvísur voru önnur ljóðabók Guðmundar Magnússonar (1873–1918) sem síðar skrifaði vinsælar sögur undir dulnefninu Jón Trausti. Bókin var prentuð árið 1903 í Ísafoldarprentsmiðju og vandað mjög til útgáfunnar með myndskreytingum eftir skáldið sjálft og listmálarann Þórarin B. Þorláksson (1867–1924). Ekki var um venjulega útgáfu að ræða heldur var bókin „prentuð sem handrit“ handa afmörkuðum hópi áskrifenda. Fyrsta ljóðabók Guðmundar, Heima og erlendis (1899), hlaut dræmar viðtökur og þessi litlu betri, þó að hún hefði að geyma ljóð sem urðu vinsæl í sönglögum eins og Draumalandið og „Eg vil elska mitt land“. Þjóðskáldið Matthías Jochumsson (1835–1920) birti kurteislegan en gagnrýninn ritdóm um Íslandsvísur í blaðinu Gjallarhorni 1903. Það var þó háðslegur niðurrifsdómur annars skálds, Sigurðar Sigurðssonar frá Arnarholti (1879–1939) í blaðinu Óðni 1905, sem hafði úrslitaáhrif fyrir bókina og höfund hennar. Guðmundur sagði síðar að hann hefði hætt að birta verk sín undir eigin nafni og tekið upp dulnefnið Jón Trausti til þess að sögurnar sem hann setti saman í framhaldinu væru óbundnar af slæmu orðspori hans sem höfundar. Í greininni er fjallað um Íslandsvísur sem ljóðabók og síðan gerð grein fyrir hinum afdrifaríku viðtökum þeirra.

Downloads

Download data is not yet available.

Author Biography

Sveinn Yngvi Egilsson

Prófessor í íslenskum bókmenntum síðari alda við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands

Útgefið
2023-12-19