Um hugrænar forsendur fyrir útvíkkun beygingarvíxla

Vitnisburður færeyskra kvenkynsnafnorða með ar-fleirtölu

  • Jón Símon Markússon
Efnisorð: beyging, færeyska, kyn, málnotkun, tíðni, umtúlkun, útvíkkun hliðstæðrar þekkingar

Abstract

Hér er gerð grein fyrir umtúlkun á færeyskum kvenkynsnafnorðum á nf./þf.ft. -ar sem karlkyns, t.d. kvk. et. fjøður fjöður ‘fjöður’ ~ ft. fjaðrar ~ kvk.ft.mgr. fjaðrarnar/stundum kk.nf.ft.mgr. fjaðrarnir, øksl ‘öxl’ ~ akslar ~ akslarnar/akslarnir. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á almennar hugrænar forsendur fyrir ferlinu með vísun til dreifitíðni endingarinnar ft. -ar, sem er há meðal karlkynsorða. Færð eru rök fyrir því að málnotendur tengi fleirtöluendinguna -ar helst við karlkynsorð vegna dreifitíðninnar en þessi afstaða fær stuðning frá eldri rannsóknum á vesturnorrænni málsögu og frá aðlögun tökuorða að færeyska beygingakerfinu. Áhrif dreifitíðni á stefnu breytinga eru talin styðja málnotkunarnálgun sem gerir ráð fyrir ríkulegu minni fyrir mannlegt mál, m.ö.o. að öll fyrri reynsla af notkun málsins sé geymd í minni í ýmsu formi og tiltæk þaðan til notkunar. Kennisetningar málnotkunarnálgunar stangast á við fræðilegar forsendur fyrir tvíúrvinnslu. Talsmenn tvíúrvinnslu eigna einingum málsins mjög takmarkað geymslupláss í minni og líta þ.a.l. svo á að beyging orða sem beygjast eftir „sjálfgefnu“ mynstri stafi af beitingu táknrænna reglna á svokallaða orðasafnsmynd. Beiting annarra mynstra fari aftur á móti fram með útvíkkun hliðstæðrar þekkingar. Frá sjónarhóli tvíúrvinnslu má líta á færeysk karlkynsnafnorð með fleirtöluendingunni -ar sem fulltrúa sjálfgefinna mynstra. Í greininni er sýnt fram á að umtúlkun kvenkynsmynda með fleirtöluendingunni -ar eigi rætur að rekja til samanburðar við víxl eins og kk. nf.et. fuglur ‘fugl’ ~ ft. fuglar ~ nf.ft. mgr. fuglarnir, en upplýsingar um víxlin hljóta þ.a.l. að geymast í minni og byggjast á fyrri reynslu af málnotkun. Virkni svokallaðra „sjálfgefinna“ mynstra er þar með álitin stafa af útvíkkun hliðstæðrar þekkingar og forsendur útvíkkunar taldar vera þær sömu og fyrir virkni mynstra sem vart má kalla sjálfgefin. Sú niðurstaða er dregin að mismikil virkni ólíkra beygingarmynstra stafi ekki af hreinum skiptum milli sjálfgefinna og annars konar mynstra heldur sé hún háð þáttum sem ekki varða málkerfið, s.s. tíðni, opnustigi skema, og áhrifum þessara þátta á beitingu almennra hugrænna ferla.

Downloads

Download data is not yet available.

Author Biography

Jón Símon Markússon

Aðjunkt í íslensku sem öðru máli við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Útgefið
2023-12-19