Alþjóðasinnaðar heimsbókmenntir og endurvakning þeirra á áttunda áratugnum í Vestur-Þýskalandi
Vettvangsfrásagnir, gagnmenning og þverþjóðleg verkalýðsstétt
Abstract
Greinin byggist á lestri og samanburði á vettvangsfrásögnum Egons Erwins Kisch og Marianne Herzog, annars vegar vel þekkts höfundar og hins vegar höfundar sem er að mestu leyti gleymdur. Markmiðið er að kanna sögulega samfellu og rof frá millistríðsárunum, þegar alþjóðasinnaðar heimsbókmenntir tóku á sig mynd, og fram á áttunda áratuginn, þegar höfundar í Vestur-Þýskalandi tóku að byggja á þeirri hefð. Greinin leiðir rök að því að slíka samfellu og rof megi greina með því að beina sjónum að þremur atriðum: 1) vettvangsfrásögninni; 2) þverþjóðlegri verkalýðsstétt; 3) gagnmenningu sem vettvangi útgáfu og dreifingar og viðfangsefni bókmenntaverka. Annar þáttur snýr að þeirri gagnrýni að sjónarhorn kommúnísku verkalýðshreyfingarinnar á öreigana sem byltingarsinnaðan hluta verkalýðsins hafi byggst á einsleitri og staðlaðri skilgreiningu á byltingarsinnanum. Gagnrýnin er í mörgum tilvikum réttmæt en skrif kommúnistans Kisch og sósíalíska femínistans Herzog eru dæmi um hefð vinstrisinnaðra bókmennta sem bregða upp myndum af fjölbreyttri og margslunginni verkalýðsstétt. Loks gefur samanburður á skrifum Herzog og Kisch færi á nákvæmari greiningu á hlutverki kyngervis. Þegar vettvangsfrásögn Herzog Von der Hand in den Mund (Úr höndinni í munninn, 1976) er lesin sem dæmi um framhaldslíf alþjóðasinnaðra heimsbókmennta má líta á hana sem gagnrýna samræðu við þessa eldri hefð. Finna má fjölmörg dæmi um kommúnísk bókmenntaverk frá millistríðsárunum sem byggðu lýsingar sínar á verkamanninum og byltingarsinnanum á viðteknum karlmennskuímyndum, þótt vitaskuld eigi það ekki við um alla texta hreyfingarinnar. Með því að beina sjónum alfarið að verkakonum í verksmiðjunni og innan heimilisins, með því að skrásetja áhyggjur þeirra, samstöðu og andóf opnar Herzog sósíalískt og femínískt sjónarhorn á verkalýðsstéttina sem tilheyrir hennar eigin tíma og sögulegu samhengi. Með því að leggja áherslu á þetta atriði afhjúpar greinin um leið mikilvæga blindu í vettvangsfrásögnum Kisch.