Hjá héraðslækni á Íslandi eftir mislukkaða heimsreisu

Albert Daudistel, alþjóðasinnaðar bókmenntir og útlegðin á Íslandi

  • Jonas Bokelmann
Efnisorð: Albert Daudistel, þýsk útlegð á Íslandi, öreigabókmenntir, vettvangsfrásagnir, Egon Erwin Kisch

Abstract

Greinin fjallar um verk þýska byltingarsinnans og öreigahöfundarins Alberts Daudistel og lýsir tengslum þeirra við tvær tegundir rauðra heimsbókmennta frá upphafi þriðja áratugarins til loka þess fimmta. Hún kannar með hvaða hætti Daudistel, sem hafði tekið virkan þátt í þýsku nóvemberbyltingunni árið 1918 og gegnt pólitísku hlutverki á tíma ráðstjórnarlýðveldisins í Bæjaralandi vorið 1919, var fulltrúi þeirrar fyrri tegundar rauðra heimsbókmennta sem tók á sig mynd á þriðja áratugnum. Greinin dregur fram tengsl Daudistels við mikilvægar stofnanir þessa sérstæða bókmenntavettvangs og lykilaðila innan hans. Einnig varpar hún ljósi á hvernig Daudistel tengdist myndun nýs hefðarveldis byltingarsinnaðra bókmennta á þessu tímabili. Enn fremur er kannað, með hliðsjón af söguþræði og frásagnarbyggingu, að hvaða marki sumir texta höfundarins eru lýsandi dæmi um lykilhugmyndir þessarar fyrri tegundar rauðra heimsbókmennta, þ.á m. hugmyndina um misgengi byltingarþróunar og verkalýðsmenningar í ólíkum heimshlutum, sem síður var litið á sem veikleika en mögulegan styrk. Með greiningu á ævisögulegum heimildum og tveimur síðari textum, smásögunni „Beim Distriktarzt auf Island“ og óútgefnu skáldsögunni Die Insel des fremden Königs, er loks kannað með hvaða hætti Daudistel hélt fast í hugmyndir þessarar fyrri tegundar byltingarsinnaðra bókmennta í útlegð sinni á Íslandi, en miðlaði einnig meginhugmyndum síðari tegundar rauðra heimsbókmennta, sem kalla mætti „alþjóðasinnaðar samfylkingarbókmenntir“. Hér svipar stöðu hans að mörgu leyti til stöðu Egons Erwins Kisch sem var lykilhöfundur á samfylkingartímabilinu en hélt þó áfram að skrifa texta sem voru frekar í anda hugmynda um margbrotna alþjóðlega verkalýðsmenningu, sem rekja má til alþjóðasinnaðra bókmennta þriðja áratugarins.

Downloads

Download data is not yet available.

Author Biography

Jonas Bokelmann

Doktorsnemi við LMU München og Háskóla Íslands og kennari við lýðháskóla og sumarskóla í Þýskalandi.

Útgefið
2024-09-27