Litla Hollywood í Hafnarfirði
Staðmiðaður lesháttur og íslensk kvikmyndagerð á upphafsárum lýðveldisins
Abstract
Í þessari grein er fjallað um lítt þekkt kvikmyndaumsvif Ásgeirs Long og Valgarðs Runólfssonar á sjötta áratug síðustu aldar. Þá sendu þeir frá sér annars vegar stuttmyndina Tunglið, tunglið taktu mig og svo hins vegar tíðarandaaðlögun á þjóðsagnaævintýrinu Gilitrutt, en síðarnefnda myndin var í fullri lengd og að hluta í lit. Fyrrnefnda stuttmyndin getur talist fyrsta íslenska vísindaskáldskaparmyndin, en hún segir frá ferðalagi til tunglsins í geimflaug. Þegar þangað er komið hittir geimfarinn Karlinn í tunglinu fyrir og lendir í kjölfarið í klóm ógnvænlegs köngulóarskrýmslis. Gilitrutt fjallar um bóndahjón sem lenda í útistöðum við tröllskessu sem býr í nálægu fjalli og sleppa með skrekkinn. Kvikmyndaaðlögunin er að mestu leyti trú þjóðsögunni, en nokkrar þungvægar breytingar eru þó gerðar og um þær er fjallað í greininni. Kvikmyndirnar eru báðar skoðaðar í ljósi frásagnaraðferðar, tæknilegrar umgjarðar, sjónrænnar áferðar og menningarlegra skírskotana, auk þess sem kvikmyndastarf Ásgeirs og Valgarðs er sett í sögulegt samhengi. Þá er sett fram viðtökufræðileg kenning um staðmiðaðan leshátt fyrir íslenskar kvikmyndir á tímabilinu fyrir stofnun Kvikmyndasjóðs, en viðmiðin fyrir slíkan leshátt eru skýrð með tilvísun til fræðaskrifa um kvikmyndagerð smáþjóða.