Í sambandi við veruleikann
– skoðun á aðferðafræði og birtingarmyndum sannsagna
Abstract
Hugtakið „sannsaga“ er þýðing og staðfærsla á enska hugtakinu „creative nonfiction“. Það er haft um bókmenntir þar sem aðferðum frásagnarlistarinnar er beitt til þess að miðla sannsögulegu efni. Oftar en ekki felur það í sér að breyta efninu að einhverju leyti í fyrstu persónu frásögn með tilheyrandi sviðsetningum og stílbrögðum. Hugtakið er því bæði haft um aðferð og nýtt til flokkunar. Upptökusvæði greinarinnar er öðru fremur enska hugtakið og umræða sem því tengist og allt er það jafnframt skoðað út frá íslenskum forsendum.
Gerð er grein fyrir uppruna hugtaksins og það sett í samhengi við óskáldaðar bókmenntir af þessu tagi. Hugsunin á bak við íslenska hugtakið er einnig útskýrð. Helstu einkenni sannsagna eru tíunduð og þær staðsettar í litrófi skáldaðra og óskáldaðra bókmennta. Eins og íslenska heitið ber með sér stefna höfundar sannsagna að því að hafa það sem sannast reynist en eru um leið meðvitaðir um þau takmörk sem minnið setur. Þeir gangast við huglægni sinni og telja það heiðarlegra og trúverðugra en að fela sig á bak við hlutlægni sem sé hvort eð er ekki annað en tálsýn.
Sannsögur hafa iðulega svipað yfirbragð og skáldaðar sögur (þ.á m. skáldævisögur). Þess vegna er ekki hægt að skera úr um það með vissu í hvorn flokkinn sannsögulegur texti fellur nema það sé gefið til kynna í einhvers konar hliðartexta af hálfu höfundar eða útgefanda. Stundum dugir það ekki til vegna þess að höfundar hafa orðið berir að því að fara frjálslega með og jafnvel ljúga til um eðli verka sinna. Samband sannsagna við veruleikann og sannleikann er margslungið eins og fram kemur í greininni.
Ýmis siðferðileg álitaefni geta fylgt því að skrifa sannsögu, einkum þegar kemur að því að skrifa um annað fólk. Höfundur ber ábyrgð gagnvart þeim sem hann skrifar um og þarf að kosta kapps um að gera það á sanngjarnan og heiðarlegan hátt, ekki síst til þess að öðlast traust lesandans. Verði höfundur of upptekinn af sjálfum sér, montinn jafnvel, er eins víst að hann glati trausti. Sannsögur eiga sér ýmsar birtingarmyndir en finna sér einna helst farveg í esseyjum, minningabókum (e. memoir) og ferðasögum.