Lifandi veggir og mannabústaðir undir yfirborði jarðar

Af ókennilegum rýmum og innilokuðum konum í verkum eftir Kristínu Eiríksdóttur

  • Helga Jónsdóttir
Efnisorð: Kristín Eiríksdóttir, Kjötbærinn, „Þrjár hurðir“, hrollvekja, súrrealismi, heimilisofbeldi

Abstract

Ljóðsagan Kjötbærinn (2004) er fyrsta bókin sem Kristín Eiríksdóttir sendi frá sér en þar er á ferð óvenjuleg hrollvekja. Sögusviðið er ókennileg íbúð þar sem veggir lifna við og hræðilegar verur skjóta upp kollinum. Þrátt fyrir óhugnaðinn innan veggja heimilisins neitar söguhetjan, Kata, að yfirgefa íbúðina þar til enn hryllilegra hús kallar á hana, sjálfur Kjötbærinn sem byggður er úr holdi og beinum. Ýmis þemu sem greina má í ljóðabókinni eru gegnumgangandi í höfundarverki Kristínar. Þar má nefna ógn og ótta sem og einkennileg híbýli sem reynast íbúunum óþægilegir staðir. Meginumfjöllunarefni greinarinnar eru Kjötbærinn og smásagan „Þrjár hurðir“ sem birtist í smásagnasafninu Doris deyr (2010). Sögurnar eiga það sammerkt að segja frá innilokuðum konum og ókennilegum rýmum auk þess sem aðalpersónur þeirra enda báðar ofan í hrollvekjandi göngum og hljóta þar með sambærileg örlög. Fjallað er um óhugnaðinn í verkunum og áhersla lögð á frásagnareinkenni hryllingsbókmennta, ekki síst arfleifð hinnar gotnesku hefðar sem nútímahrollvekjur eiga rætur sínar að rekja til. Hin ókennilegu rými, sem sum svipa til reimleikahúsa, eru heimsótt og því haldið fram að þau varpi ljósi á hugarástand persónanna. Þá verður vikið að samfélagsádeilu verkanna sem miðlað er með súrrealisma og óhugnaði í senn.

Downloads

Download data is not yet available.

Author Biography

Helga Jónsdóttir

Aðjunkt í íslensku sem öðru máli við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Útgefið
2024-12-20