Ljós og skuggar í sögulegri sagnagerð Madame de Lafayette eða hin ósagða saga um greifann af Tende
Abstract
Sögulega smásagan Greifynjan af Tende eftir Madame de Lafayette (1634–1693) kom nýverið út í íslenskri þýðingu í smásagnasafninu Fríða og dýrið. Franskar sögur og ævintýri fyrri alda. Fjallað verður um söguna og hún sett í samhengi við smásöguna La Princesse de Montpensier og sögulegu nóvelluna La Princesse de Clèves eftir sama höfund sem báðar teljast með merkustu bókmenntaverkum sautjándu aldar. Allar sögurnar þrjár gerast við hirðir síðustu Valois-konunganna á tímum trúarbragðastríðanna, um hundrað árum fyrir ritunartíma þeirra. Skáldskaparfræðileg greining á frávikum höfundar frá sögulegum staðreyndum leiðir í ljós að eitt af því sem fyrir skáldkonunni hefur vakað, hefur verið að minnast kvenna sem dæmdar höfðu verið til gleymsku og afreka sem kenna mætti við borgaralega óhlýðni.