Þýskar þýðingar á íslenskum smásögum og nóvellum 1883–1913
Abstract
Greinin fjallar um rannsókn á íslenskum smásögum og nóvellum sem komu út í þýskri þýðingu 1883–1913. Rannsóknin leggur áherslu á virkni þýðenda í ferlinu og byggir að stórum hluta á hliðartextum sem þýðendur létu fylgja þýðingum sínum eða birtu í öðrum miðlum. Hún sýnir fram á að alls komu út á þýsku 44 þýðingar eftir níu þýðendur sem byggja á 24 íslenskum frumtextum eftir átta höfunda. Þýðingarnar birtust með skömmu millibili í dagblöðum, almennum eða sérhæfðum tímaritum og bókaútgáfu. Margar þýðingar voru prentaðar oftar en einu sinni en einnig þýddu ólíkir þýðendur sömu texta með skömmu millibili þannig að tíðni birtinga var há. Mótað var hugtakið „íslenskur sagnaskáldskapur“ og íslenskum höfundum af ólíkum kynslóðum og stefnum var skipað undir sama merkimiðann. Eftirtektarvert er að íslensk bókmenntaverk voru oft þýdd á þeim forsendum að túlka mætti þau sem þjóðfræðilegar heimildir um Ísland frekar en sjálfstæð bókmenntaverk.