Skrifaðu smásögu!
Abstract
Greinin „Skrifaðu smásögu!“ eftir Rúnar Helga Vignisson fjallar um ferlið að skrifa smásögu og veitir ýmis ráð til rithöfunda. Rætt er um eðli og eiginleika smásögunnar og hún skoðuð í sögulegu ljósi meðfram því sem tæknileg atriði eru tekin til umfjöllunar, svo sem sviðsetning, sjónarhorn, persónusköpun og bygging. Rúnar Helgi tekur ýmis dæmi til að sýna í hnotskurn hvers konar kröfur smásögur gera til höfundar um það hvernig hann nálgast viðfangsefni sitt. Í greininni er bent á að smásögur séu knappar og markvissar; þær þurfi að miðla tilfinningum og dýpt í fáum orðum. Þar getur undirtexti komið að góðum notum. Rúnar ræðir einnig hvernig beiting stíls og tákna getur nýst til að skapa ákveðið andrúmsloft í sögu og auka áhrif hennar. Smásögu má síðan ljúka á ýmsa vegu, til dæmis með óvæntum endi eða hugljómun, en einnig má fela lúkninguna milli línanna. Þegar uppkast er komið í hús þarf höfundur að beita agaðri umritun og láta hvert orð berjast fyrir tilveru sinni. Bendir Rúnar á nokkur atriði sem gott sé að vera á varðbergi gegn, svo sem þá tilhneigingu margra höfunda að taka óþarflega langa atrennu að sögunni eða ljúka henni í of löngu máli þannig að lítið verður fyrir lesandann að túlka.