Sviðin jörð og silungsveiði
Áföll og umhverfisvitund í smásögunni Tvíhjartað stórfljót eftir Ernest Hemingway
Abstract
Áföll og umhverfisvitund í smásögunni Tvíhjartað stórfljót eftir Ernest Hemingway „Big Two-Hearted River“ (Tvíhjartað stórfljót) er smásaga í tveimur hlutum sem birtist í bókinni In Our Time (1925) eftir bandaríska rithöfundinn Ernest Hemingway (1899–1961). Frásögnin er í þriðju persónu og segir frá útilegu og silungsveiði ungs manns, Nicks Adams, sem er einn á ferð í skóglendi Norður-Michigan. Hann er söguhetjan í 24 smásögum sem Hemingway gaf út á þriðja og fjórða áratug 20. aldar. Saman birta sögurnar brotakennda mynd af lífi þessarar skálduðu persónu sem slasast í fyrri heimstyrjöldinni og reynir að ná sér eftir heimkomuna til Bandaríkjanna. Þó að ekki sé minnst á stríðið og einungis ýjað að því í Tvíhjörtuðu stórfljóti má lesa söguna sem tilraun manns, sem orðið hefur fyrir áfalli, til að gleyma hinu liðna og lifa í núinu. Endurnýjuð tengsl við náttúruna eru mikilvægur þáttur í því ferli eins og sjá má á útivist og veiðum Nicks. Í greininni er fjallað um þessi umhverfistengsl og náttúrulýsingar í ljósi vistrýni. Auk þess eru ákveðin áfallamerki og tákn í frásögninni túlkuð út frá áfallafræði og minnisfræði.