„Samlíðunin er uppspretta hins æðsta saungs“
Um samlíðan, samskipti og bókmenntir
Abstract
Greinin fjallar um samlíðan (e. empathy) sem grundvallarþátt í mannlegum samskiptum og lykilatriði í heilbrigðisþjónustu. Rætt er um ólíkar skilgreiningar á hugtakinu og dregið fram hvernig samlíðan stýrist bæði af líffræðilegum þáttum, svo sem samspili spegilfrumna, og félagslegum þáttum eins og aðstæðum, tengslum og menningarlegu samhengi. Sérstök áhersla er lögð á hvernig læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk geta þjálfað og tileinkað sér samlíðan í starfi og komið henni til skila í samskiptum við skjólstæðinga meðal annars með því að hlusta af virðingu, sýna næmni og bregðast við tilfinningum annarra af mannúð. Í greininni er einnig rætt hvernig lestur og greining bókmenntatexta getur veitt læknum og læknanemum dýrmæta innsýn í tilfinningalíf sjúklinga og þjálfað þá í að greina og bregðast við ólíkum birtingarmyndum þjáningar. Í því skyni eru teknir til skoðunar valdir kaflar úr skáldsögunum Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur og Grandavegi 7 eftir Vigdísi Grímsdóttur. Textarnir sýna með áhrifaríkum hætti hvernig skortur á samlíðan getur haft alvarlegar afleiðingar í samskiptum og hvernig bókmenntir geta stuðlað að dýpri skilningi á mannlegri reynslu, þjáningu og læknislistinni sjálfri.