„Ekkert endist. Annað en Sorgin. Og Ofurástin.“

Um búksorgir, ástarsorg og jöklasorg í BÓL eftir Steinunni Sigurðardóttur

  • Guðrún Steinþórsdóttir
Efnisorð: Steinunn Sigurðardóttir, BÓL, læknahugvísindi, frásagnarlæknisfræði, sorg, sársauki, nostalgía, solastalgía

Abstract

Árið 2023 sendi Steinunn Sigurðardóttir frá sér verðlaunaskáldsöguna BÓL þar sem segir frá þýðandanum Líneik Hjálmsdóttur, eða LínLín eins og hún er kölluð. Meginviðfangsefni bókarinnar eru sorg, eftirsjá, ofurást og alvarleg áhrif þess að þegja yfir leyndarmálum um árabil. Rétt eins og kemur glögglega fram í sögunni hefur líf LínLín verið flókið; hún fær ekki æskuástina og í ofanálag upplifir hún margs konar missi; foreldrar hennar og einkadóttir eru látin, hún hefur veikst alvarlega og misst heilsuna og sælureitur hennar í sveitinni er á leið undir glóandi hraun. Í greininni er fjallað um hvernig sorg og sársauka LínLín er lýst og hvernig hún bregst við missi og söknuði. Sjónum er ekki síst beint að því hvernig nostalgían mótar frásögn hennar og hvernig fortíðarlöngun gegnir lykilhlutverki í sjálfsskoðun og tilraun til að skilja lífsreynsluna. Einnig er tekið til skoðunar hvernig sú vanlíðan sem hlýst af náttúruhamförum og loftslagsvá; einkum bráðnun jökla og yfirvofandi eyðileggingu landslags, sem áður veitti persónunni öryggi og ró; tengist hugtakinu solastalgía. Greiningin dregur fram hvernig skáldsagan BÓL varpar ljósi á flókið samspil sorgar, minninga og sjálfsmynda í lífi LínLín, og hvernig fortíðin – í gegnum nostalgíu, leyndarmál og tengsl við náttúruna – verður lykill að því að skilja nútíðina og lifa hana af.

##plugins.generic.usageStats.downloads##

##plugins.generic.usageStats.noStats##

Author Biography

Guðrún Steinþórsdóttir

Ritstjóri Ritsins og aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. 

Útgefið
2025-09-30