„Riddarinn hallast við brotinn brand, bleik er hans unga kinn“

Um birtingarmyndir berkla í skáldskap

  • Sveinn Yngvi Egilsson
Efnisorð: berklar, rómantík, íslensk ljóðagerð, Jóhann Gunnar Sigurðsson, Stefán Sigurðsson, Guðfinna Jónsdóttir

Abstract

Í greininni er fjallað um skáldskap sem tengist berklum. Hún hefst á almennum inngangi um sögu berkla og menningarlega þýðingu þeirra sem „rómantísks sjúkdóms“. Síðan eru dregnar saman helstu niðurstöður erlendra rannsókna á berklabókmenntum. Susan Sontag og Katherine Byrne hafa bent á skáldskapareinkenni á borð við blómamál, lit og litleysi (roða, fölva), hita og kulda, hernaðarmál (bardaga, berkla sem óvin) og persónugervingar berkla eða dauðans (vofa, svipur, beinagrind). Auk þess hafa þær sýnt að í skáldskapnum birtast oft sterkar andstæður eins og lífsþorsti og dauðaþrá, fegurð og ljótleiki, ást og hatur eða beiskja, ástríður og deyfð, sköpunarkraftur og lamandi depurð, virkni og þolandaháttur, líkami og andi. Í greininni er leitað svara við þeirri spurningu hvort hliðstæð einkenni megi finna í íslenskri ljóðagerð. Könnunin beinist sérstaklega að völdum kvæðum eftir skáldin Jóhann Gunnar Sigurðsson (1882–1906), Stefán Sigurðsson frá Hvítadal (1887–1933) og Guðfinnu Jónsdóttur frá Hömrum (1899–1946). Einnig er hugað að þeim hugmyndaklasa sem tengist sjúkdómum eins og berklum og getur falið í sér æsku, fegurð, gáfur, hnignun, depurð og dæmda ást eða ill örlög. Helstu niðurstöðurnar eru þær að í ljóðum þessara þriggja skálda, sem öll dóu úr berklum, megi greina hliðstæð einkenni og bent hefur verið á í erlendum berklaskáldskap. Áðurnefndar andstæður setja sterkan svip á kvæði þeirra allra. Mikið ber á myndmáli kulda og þrá eftir hlýju og birtu. Haust- og vetrarlandslag myndar þá gjarnan andstæðu við vor- og sumarmyndir. Í kvæðum Jóhanns Gunnars birtast veikindin oft í myndhverfingum og ummyndunum eins og þekkt er úr kvæðum eftir erlend skáld eins og John Keats (1795–1821) sem berklar drógu til dauða. Þeir yrkja báðir um föla riddara sem eru milli heims og helju (kvæðin La Belle Dame sans Merci og Í val). Jóhann Gunnar sækir stef og stíl í þjóðkvæði og lætur ljóðrænan óhugnað þeirra endurspegla vanlíðan og ótta þeirra sem eru alvarlega veik. Stefán frá Hvítadal yrkir á beinskeyttari hátt þó að hann beiti líka myndmáli til að lýsa þeirri líðan og tilfinningum sem fylgja því að vera haldinn lífshættulegum sjúkdómi. Kvæði Stefáns einkennast af hispurslausri tjáningu og tilfinningasveiflum sem lýsa von um bata og ótta við dauðann. Guðfinna frá Hömrum skapar ákveðinn ljóðheim sem helgast af fegurð, samhljómi og birtu. Tónlist setur sterkan svip á skáldskapinn og myndar eins konar hljómgrunn í lýsingum á náttúrunni og tilfinningum. Guðfinna yrkir um dulúðuga tóna og hljóma sem óma í sköpunarverkinu og tengja má hugmyndinni um „hljómlist hvolfanna“ (lat. Musica universalis, e. Music of the spheres). Keats yrkir á svipaðan hátt í Ode on a Grecian Urn og skapar í ljóðum sínum heim fegurðar og samhljóms. Nálægðin við dauðann og undirliggjandi depurð koma víða fram í ljóðum Guðfinnu og geta tekið á sig tónlistarmyndir. Þannig má greina ýmis einkenni berklabókmennta í ljóðum Guðfinnu en í samanburði við skáldskap Jóhanns Gunnars og Stefáns er ljóðheimur hennar fagurfræðilegri og hljómrænni. Í lok greinarinnar er hvatt til frekari rannsókna á íslenskum bókmenntum sem tengjast berklum.

##plugins.generic.usageStats.downloads##

##plugins.generic.usageStats.noStats##

Author Biography

Sveinn Yngvi Egilsson

Prófessor í íslenskum bókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Útgefið
2025-09-30