„Var ég þá dómari! Var ég böðull?“
Skáldsagan Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson sem lesefni í laganámi
Abstract
Þverfaglegar rannsóknir á sambandi laga og bókmennta eiga sér langa sögu í Bandaríkjunum og náðu síðar fótfestu í Evrópu. Upphaflega tengdust þær umræðum um áhugavert lesefni fyrir nemendur í laganámi. Í greininni er fjallað stuttlega um þróun rannsóknarsviðsins og þá mælikvarða sem notaðir hafa verið til þess að meta hvort skáldverk eigi heima á þessum vettvangi. Höfuðviðfangsefnið er síðan skáldsaga Gunnars Gunnarssonar, Svartfugl. Er hún sett í samband við ýmsar réttarheimspekilegar og stjórnspekilegar hugmyndir, sem og sígildar áskoranir réttarkerfisins við leitina að þeim sannleika sem telst hafinn yfir skynsamlegan vafa. Sagan er rædd í ljósi valdgreiningarhugmynda, stöðu matsmanna og þýðingar matsgerða og kenninga af meiði amerískrar raunsæishyggju í lögfræði um staðreyndarefa og regluefa. Niðurstaða höfunda er að Svartfugl eigi ekki síður erindi við íslenska laganema en ýmis sígild skáldverk sem mestrar hylli hafa notið á þessum vettvangi erlendis.