Andóf og innlimun
Gagnrýni listamannsins á stóriðjustefnu íslenskra stjórnvalda við aldamót
Abstract
Í þessari grein er rýnt í það hvernig iðnaðaruppbygging á vegum íslenskra stjórnvalda og alþjóðlegra stórfyrirtækja í byrjun tuttugustu og fyrstu aldarinnar var gagnrýnd í verkum ýmissa listamanna hérlendis. Við greininguna er stuðst við kenningu frönsku félagsfræðinganna Lucs Boltanski og Ève Chiapello um gagnrýni listamannsins á kapítalismann. Enn fremur er rætt um skörun gagnrýni listamannsins, vistrænnar gagnrýni, auðgunarhagkerfisins og náttúruhverfrar þjóðernishyggju.
Enn sem komið er hafa hvorki kenningar Boltanskis og Chiapello um gagnrýni listamannsins né kenningar Boltanskis og Arnauds Esquerre um auðgunarhagkerfið verið teknar til fræðilegrar umfjöllunar hér á landi. Markmið eftirfarandi greinar er tvíþætt. Annars vegar að kynna á íslenskum fræðavettvangi verk þessara kenningasmiða og hins vegar að sannreyna þá Frakklands-miðuðu fullyrðingu Boltanskis og Chiapello að gagnrýni listamannsins hafi, um það leyti sem framkvæmdir hófust við Kárahnjúka, verið „í lamasessi vegna innlimunar hins nýja anda kapítalismans á hluta af inntaki hennar“.
Helsta niðurstaða okkar er sú að greina megi við síðustu aldamót á Íslandi endurnýjaða og staðbundna birtingarmynd gagnrýni listamannsins á tilteknar birtingarmyndir hnattvædds kapítalisma sem hafi hérlendis það sérkenni að renna saman við náttúruhverfa þjóðernishyggju.