„Það er sjálfbærni í þessu öllu“
Um umhverfisstefnur menningarstofnana
Abstract
Greinin fjallar um hvernig fjórar íslenskar menningarstofnanir – Ríkisútvarpið, Harpa, Listahátíð í Reykjavík og Kvikmyndamiðstöð Íslands – hafa mótað og innleitt umhverfis- og sjálfbærnistefnur í starfsemi sinni. Byggt er á greiningu stefnuskjala og viðtölum við lykilstarfsmenn og rýnt í samspil mælanlegra aðgerða, opinberra forskrifta og faglegra gilda menningarstofnana. Í greiningunni eru kenningar DiMaggio og Powell um einsmótun (e. institutional isomorphism) og Boltanski og Thévenot um virðisveldi (e. economies of worth) notaðar til að sýna hvernig umhverfisstefnur menningarstofnana taka á sig mynd í samþættingu mismunandi réttlætinga og virðisheima. Niðurstöður sýna að þó að opinberar kröfur um sjálfbærni hafi mótandi áhrif, eru stefnur og aðgerðir menningarstofnana jafnframt afurð samninga milli ólíkra gilda, þar sem listræn sýn, samfélagsleg ábyrgð og samkeppnissjónarmið takast á og renna saman á mismunandi hátt. Greinin dregur fram hvernig menningarstofnanir takast á við samfélagsleg verkefni og spurningar um ábyrgð og réttlætingar.