Hættuleg málfarsumræða

  • Ingunn Hreinberg Indriðadóttir
Efnisorð: Hatursorðræða, málfarsumræða, félagsmálvísindi, málfarssmánun, málfarsleg aftenging, málfarsleg útilokun

Abstract

Á Íslandi er löng hefð fyrir virkri umræðu um málfar og málvöndun sem einkennist gjarnan af íhaldssömum viðhorfum íslenskra málhafa gagnvart þjóðtungu sinni. Undanfarna áratugi hefur sú umræða í miklum mæli tekið sér bólfestu í athugasemdakerfum fréttamiðla og á samfélagsmiðlum. Málfarsumræðan fjallar að miklu leyti um skilgreiningar málhafa á „réttu“ og „röngu“ máli og getur hún stundum verið ansi neikvæð, jafnvel byggð á fordómum gagnvart öðrum málhöfum þar sem ákveðinn hópur málvöndunarsinna, sem telur sig tala rétt og gott mál, tengir hin ýmsu tilbrigði tungumálsins við mannkosti og sýnir yfirburði og vald gagnvart öðrum málhöfum, jafnvel á ofbeldisfullan hátt. Í þessari grein er fjallað um mörk málfarsumræðu og hatursorðræðu og það sem gerist þegar mengi þeirra skarast. Kynntar verða niðurstöður rannsóknar á eitraðri málfarsumræðu íslenskra málhafa á samfélagsmiðlum á árunum 2014-2022. Í rannsókninni voru skoðaðar athugasemdir málnotenda og greindar þrjár ólíkar birtingarmyndir þess að hatursfull eða eitruð ummæli séu látin falla í skjóli málvöndunar eða varðveislu íslenskrar tungu. Að lokum verða færð rök fyrir því að neikvæð og ofbeldisfull málfarsumræða skapi vettvang fyrir útbreiðslu fordóma og hatursorðræðu sem ógnar öryggi þeirra jaðarsettu hópa sem hún beinist gegn.

##plugins.generic.usageStats.downloads##

##plugins.generic.usageStats.noStats##

Author Biography

Ingunn Hreinberg Indriðadóttir

Aðjunkt við Deild faggreinakennslu HÍ.

Útgefið
2025-12-17