Virk málnotkun í skólastarfi

Reynsla, viðhorf og ritunarfærni nemanda

  • Sigríður Ólafsdóttir
  • Berglind Hulda Theodórsdóttir
Efnisorð: læsi, ritunarfræði, orðaforði, lesskilningur, samræður, skólastarf

Abstract

Fjölmargar og síendurteknar rannsóknir hafa sýnt að lesskilningur eflist best þegar nemendur lesa um áhugaverð málefni, ræða saman og skrifa um efnið. Það er virk málnotkun nemenda sem hefur reynst árangursríkust til eflingar lesskilnings.

Markmið rannsóknarinnar var að leita eftir viðhorfi nemenda og reynslu af samræðum og ritun í skólastarfi yfir eitt skólaár, þ.e. frá upphafi til loka 7. bekkjar grunnskóla. Einnig var ætlunin að kanna hvernig ritunarfærni nemenda þróaðist á rannsóknartímabilinu. Þátttakendur voru 33 nemendur tveggja kennara, sem tóku þátt í starfsþróunarnámskeiði Menntafléttunnar, Byggjum á forvitni og áhuga nemenda: Aukin tækifæri til virkrar málnotkunar (hópur A), og 40 nemendur tveggja kennara, sem ekki sóttu námskeiðið (hópur B). Í hópi A voru allir nemendur með íslensku sem móðurmál en í hópi B voru sex nemendur með íslensku sem annað tungumál, með langan dvalartíma hérlendis. Spurningakönnun (reynsla og viðhorf) og ritunarpróf voru lögð fyrir í upphafi og við lok skólaársins.

Næstum allir nemendur í hópi A sögðust oft eða stundum ræða saman um viðfangsefni námsins, hlutfallið var aðeins lægra í hópi B. Tveir af hverjum þremur nemendum í hópi A sögðust oft eða stundum skrifa sögur eða ritgerðir en helmingur nemenda í hópi B, bæði að hausti og að vori. Í báðum hópum var hærra hlutfall nemenda sem fannst skemmtilegt að skrifa en sagðist skrifa. Hlutfall jákvæðra til ritunar hélst hærra í skóla A, þó það hafi lækkað, en hækkaði í hópi B.

Hópur A sýndi betri ritunarfærni að hausti og tók framförum á rannsóknartímanum í meðaltali stigafjölda (gæði ritunar), heildarfjölda orða og fjölda námsorða, en lækkun varð í hópi B á öllum þáttum. Hækkun í stigafjölda varð hjá 36,7% nemenda í hópi A og hjá 20% í hópi B. Lækkun varð hjá tveimur nemendum í hópi A (6,7%) og hjá átta nemendum í hópi B (20%). Að frátöldum þeim sem fengu hæstan stigafjölda að hausti og vori fengu 40% barnanna í hópi A og 57,5% í hópi B sama stigafjölda að hausti og að vori.

Framfarir í hópi A í ritun gætu skýrst af því að börnin komu sterkari til leiks en líka af því að kennararnir fengu á námskeiðinu fræðslu um gagnreyndar kennsluaðferðir með samræðum og ritun, sem leið til eflingar lesskilnings, sem ætlunin var að kennararnir innleiddu í skólastarfið jafnóðum.

##plugins.generic.usageStats.downloads##

##plugins.generic.usageStats.noStats##

Author Biography

Sigríður Ólafsdóttir

Dósent við Deild faggreinakennslu HÍ.

Útgefið
2025-12-17