„Já, ég er drottning en ég er líka kona… og eiginkona!“
Að hafast við á hinu póstfemíníska sviði í sjónvarpsþættinum The Crown
Abstract
Birtingarmynd Elísabetar II sem sögupersónu í sjónvarpsþáttunum Krúnunni (e. The Crown) er tekin til skoðunar og reynt að bera kennsl á þá undirliggjandi póstfemínísku þræði sem eru ráðandi í persónusköpun hennar og færð rök fyrir því hvernig þessar áherslur endurspegla nútímakröfur til kvenna. Hér má nefna valkostaspurningar varðandi atvinnuþátttöku, ástarlíf, barnauppeldi, hækkandi aldur og að vera allt í öllu (e. having it all). Þá kemur afurð nýfrjálshyggjunnar, sjálfstraustsmenningin (e. confidence culture) reglulega fyrir í þáttunum þar sem ábyrgðinni er varpað á konuna sjálfa sem einstakling, í stað þess að beina sjónum að stofnanalegum og samfélagslegum valdastrúktúr. Í greininni er notast við orðræðugreiningu þar sem persónusköpun Elísabetar er sett í samband við skrif Peter Morgan og Robert Lacey. Sá fyrrnefndi lýsir þáttunum sem „sögulegum sannleik“ þó persónusköpun Elísabetar halli sér fremur að speglun á nútímaveruleika kvenna þar sem einblínt er á útlitslegar takmarkanir og ástarlíf valdamikillar konu sem um leið smættar hana og sögulega merkingu embættis hennar.