Jakobínuvegir
Tími, þjóð og dvalarstaðir í verkum Jakobínu Sigurðardóttur
Abstract
Í greininni er litið yfir höfundarverk Jakobínu Sigurðardóttur á aldarafmæli hennar og rýnt í ýmsa þætti í skáldsögum hennar, smásögum, ljóðum og æskuminningum. Hugað er að því hvernig höfundurinn sviðsetur tímann í textum sínum – tímann í æviskeiðinu og í samskiptum kynslóða, og tímann í lífi þjóðar sem skipti að miklu leyti um vistarverur á 20. öld, jafnframt því sem hún öðlaðist fullveldi og sjálfstæði. Frásögn er lykilatriði í meðferð tímans og sögulegra umskipta, og fjallað er um það
hvernig Jakobína endurnýjar raunsæishefðir en grípur einnig til róttækari frásagnarnýjunga sem draga lesandann með virkum hætti inn í samræður um tengsl og tengslaleysi kynja og kynslóða, um jafnrétti og réttlæti, og um þær ferðaleiðir og aðstæður sem tengja saman og móta dvalarstaði – bæði einstök hús og þjóðarheimilið.
Lykilorð: Höfundarverk Jakobínu Sigurðardóttur, þjóð, tími, vistarverur, frásagnarform