Ljós í myrkri
Saga kvikmyndunar á Íslandi
Abstract
Í greininni er stiklað á stóru í sögu íslenskra kvikmynda allt frá upphafi sýninga í byrjun tuttugustu aldar fram til dagsins í dag. Henni er skipt í tvo hluta og varpar sá fyrri ljósi á kvikmyndagerð fyrir daga Kvikmyndasjóðs, sem árið 1980 innleiddi í fyrsta skipti reglubundna kvikmyndaframleiðslu á Íslandi. Fyrir daga Sjóðsins urðu landsmenn að reiða sig á óeigingjarnt starf og fjárútlát einstakra frumherja, sem höfðu allajafna lítt verið skólaðir í kvikmyndagerð, eða erlenda gesti sem einir síns liðs eða í samstarfi við heimamenn komu að gerð bæði heimildar- og leikinna frásagnarmynda. Þær fáu þöglu myndir sem gerðar voru hérlendis voru einmitt aðlaganir erlendra kvikmyndagerðarmanna á íslenskum bókmenntaverkum þar sem náttúra landsins fékk að njóta sín til hins ítrasta. Fyrsta eiginlega íslenska leikna myndin var ekki gerð fyrr en um miðja öld og þótt hún nyti mikillar hylli meðal áhorfenda,
líkt og raunar þær myndir sem fylgdu í kjölfar hennar, var þjóðin einfaldlega of smá til að standa undir kvikmyndarekstri án utanaðkomandi stuðnings.
Tilkoma Kvikmyndasjóðs gjörbreytti kvikmyndalandslaginu hvað þetta varðar og til aðgreiningar er nýja landslagið kennt við samtímann í seinni hluta greinarinnar—aðgreining í tíma vissulega en ekki síður á innviðum íslenskrar kvikmyndagerðar. Nutu fyrstu myndir níunda áratugarins og mikilla vinsælda en ört dró úr aðsókn er á leið áratuginn. Aftur kom þá aðstoð erlendis frá og nú í formi evrópskra og norrænna styrkja, og fylgdu þeim ekki aðeins þverþjóðlegar áherslur í fjármögnun og framleiðslu heldur einnig formi og efni. Koma þessar hræringar skýrast fram í þeim myndum tíunda áratugarins sem vöktu athygli utan landsteinanna og unnu jafnvel til verðlauna á kvikmyndahátíðum. Á fyrsta áratugi nýrrar aldar tóku bandarískar greinamyndir (einkum glæpamyndir) hins vegar að velta úr sessi evrópsku hátíðarmyndinni sem helstu fyrirmynd íslenskra kvikmyndagerðarmanna. Ennfremur gerðu skyndilega farfuglar frá Hollywood sig heimakomna á Íslandi (yfir sumarmánuðina að hætti annarra farfugla) og tóku upp fallegar landslagsmyndir fyrir sín eigin ævintýr. Með þessum hætti er íslensk kvikmyndagerð ekki lengur einungis þjóðleg eða þverþjóðleg heldur einnig alþjóðleg.