Upphaf kvikmyndaaldar á Íslandi
Abstract
Greinin tekur á forsögu og fyrstu árum kvikmynda á Íslandi þar sem leitast er við að dýpka þekkingu okkar á helstu þátttakendum í því að kynna kvikmyndina fyrir Íslendingum. Tvö ártöl er spanna þriggja ára tímabil marka alla jafna upphaf kvikmyndamenningar á Íslandi. Hið fyrra er 1901 en í september það ár kom hollenski kvikmyndatökumaðurinn F. A. Nöggerath til að mynda land og þjóð fyrir enskt kvikmyndafélag. Síðara ártalið er 1903 en þá sóttu Norðmaðurinn Rasmus Hallseth og Svíinn David Fernander landið heim í þeim tilgangi að sýna kvikmyndir í fyrsta sinn á Íslandi. Þessar tvær heimsóknir mætti kalla upphaf kvikmyndaaldar á Íslandi þar sem Íslendingar höfðu ekki haft nokkur kynni af kvikmyndamiðlinum sem var að ryðja sér til rúms víða um heim, ef frá eru taldar umfjallanir dagblaða af miðlinum og frásagnir lánsamra Íslendinga sem fengið höfðu að upplifa kvikmyndasýningar erlendis. Forsaga kvikmynda á Íslandi einkenndist helst af skuggamyndasýningum sem Sigfús Eymundsson og Þorlákur Ó. Johnson stóðu fyrir á 19. öld en eftir kynnin af kvikmyndum árið 1903 slógu nokkrir menn saman og keyptu sýningarbúnað Hallseths og Fernanders og hófu sýningar á eigin spýtur. Ekki urðu daglegar sýningar þó að veruleika fyrr en Reykjavíkur Biograftheater (síðar Gamla Bíó) var stofnað árið 1906. Eftir nokkrar tilraunir ýmissa aðila til að stofna til reglulegra sýninga í Reykjavík má segja að landnámi lifandi mynda hafi ekki lokið fyrr en sýningar voru komnar í nokkuð fasta rekstrarlega umgjörð með stofnun Nýja bíós árið 1913.