„Taumlaust blóðbað án listræns tilgangs“

Íslenski bannlistinn og Kvikmyndaeftirlit ríkisins

  • Björn Þór Vilhjálmsson
Efnisorð: Íslensk kvikmyndasaga, Kvikmyndaeftirlit ríkisins, Kvikmyndaskoðun, bannlistinn, braskbíó

Abstract

Eftirlit með kvikmyndasýningum á Íslandi á sér næstum því jafn langa sögu og sýningarnar sjálfar. Enda þótt að eftirlitinu hafi verið staðið með ólíkum hætti hafa áþekkar hugmyndir og áherslur legið því til grundvallar nær alla tíð, og voru þær jafnframt forsenda þess að í upphafi þótti nauðsynlegt að sýna kvikmyndahúsunum aðhald. Vega þar þyngst sjónarmið er tengjast barnavernd og áhrifamætti sjónleikja á hvíta tjaldinu. Þótt ætla mætti að fullorðnir væru öllu jafnan í stakk búnir til að leggja mat á efnið sem til sýnis var þótti víst að börn væru þar mun berskjaldaðri og meta þyrfti sérstaklega hvað væri við þeirra hæfi. Þegar hugað er að sögu eftirlits með kvikmyndum á Íslandi er engu að síður hætt við að röð atburða á níunda áratug síðustu aldar veki sérstaka athygli. Kvikmyndaeftirliti ríkisins var þá í fyrsta sinn veitt lagaumboð til að banna kvikmyndir og var um leið skorin upp herör gegn ákveðinni tegund af „ofbeldismyndum“; kvikmyndum sem þóttu misbjóða almennu siðgæði með sýningum á hrottaskap og ódæðisverkum. Nokkru síðar var birtur listi yfir kvikmyndir sem bannaðar voru á Íslandi, og birtingunni var svo fylgt eftir með víðtækum lögregluaðgerðum. Hvað varðar inngrip hins opinbera í menningarneyslu þjóðarinnar og kvikmyndadreifingu í landinu má telja aðgerðirnar sérlega róttækar, og vöktu þær enda mikla athygli – og stundum hörð viðbrögð.

Í þessari grein eru rök færð fyrir því að „bannlistann“ megi skoða sem dæmi um það hvernig merking menningarafurða mótast í viðtökuferlinu, og jafnframt að viðtökurnar sjálfar séu mótaðar af flókinni sögu er tekur jafnt til samspils þjóðfélagsaðstæðna, siðferðis og gildismats, auk tækniþróunar. Þannig verður því haldið fram að með tilkomu bannlistans hafi ný kvikmyndagrein orðið til á Íslandi, bannlistamyndin, en ólíkt flestum hefðbundnum kvikmyndagreinum sé hún aðeins merkingarbær þegar litið er til virkni hennar í samfélagsumræðunni. Það er að segja, bannlistamyndir tengjast innbyrðis í krafti þeirrar stöðu sem bannið skipar þeim í – og bannið sem slíkt endurspeglar flóknar menningarlegar og samfélagslegar átakalínur. Fyrsti hluti greinarinnar dregur upp mynd af forsögu bannlistans, bæði hvað varðar íhlutun yfirvalda og almennar áhyggjur af spillingarmætti kvikmynda. Leiðir þetta að umræðu um bannlistann sjálfan, tilkomu hans og stofnanalega umgjörð, og verður hér einkum staldrað við hugtakið „ofbeldismynd“, og þá gætt annars vegar að réttarfarslegri virkni þess í hegningarlöggjöfinni og hins vegar virkni þess sem kvikmyndasögulegs hugtaks. Í næsta hluta verður hin opinbera orðræða sett í samhengi við umræðuna í samfélaginu og sýnt hvernig skilgreining löggjafans á ofbeldismynd tekur á sig nýja og flóknari mynd um leið og merking hugtaksins verður umdeildari og fleiri taka þátt í að skilgreina og móta það. Í þessu sambandi verður lykiltáknmynd bannlistans skoðuð sérstaklega, en það er ítalska kvikmyndin Cannibal Holocaust (Ruggero Deodato, 1980).

Downloads

Download data is not yet available.

Author Biography

Björn Þór Vilhjálmsson

Lektor í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Útgefið
2019-10-24