„Þannig er saga okkar“

Um sagnritunarsjálfsögur og skáldsöguna Hundadaga eftir Einar Má Guðmundsson

  • Xinyu Zhang
Efnisorð: Póstmódernismi, póstmódernískar bókmenntir, sagnritunarsjálfsaga, Einar Már Guðmundsson, Hundadagar, íslenska efnahagshrunið, saga og skáldskapur

Abstract

Í skáldsögunni Hundadögum (2015) eftir Einar Má Guðmundsson vofir hin áleitna spurning hvernig samband milli veruleika og skáldskapar sé yfir, enda er um að ræða skáldskap um raunverulegar sögulegar persónur og atburði (Jörgen Jörgensen, séra Jón Steingrímsson, Finn Magnússon, Guðrúnu Johnsen o.fl.), en það sama má segja um allmargar aðrar skáldsögur sem kenndar eru við póstmódernisma. Kanadíski bókmenntafræðingurinn Linda Hutcheon nefnir slík skáldverk sagnritunarsjálfsögur eða historiographic metafiction: skáldverk sem eru „sjálfslýsandi en leggja hald sitt á sögulega atburði og persónur á þverstæðukenndan hátt“. Að mati Hutcheon sýna sagnritunarsjálfsögur hvað best hvernig póstmódernismi er upptekinn af bæði þekkingarfræðilegri og verufræðilegri stöðu sögunnar. Í greininni er fyrst drepið á kenningar Hutcheon um póstmódernisma, póstmódernískan skáldskap og samband milli sögu og skáldskapar, en þá er skáldsagan Hundadagar greind ítarlega með hliðsjón af hugtakinu sagnritunarsjálfsaga. Rýnt er í frásagnaraðferðir sögumanns, svo sem samskipan/hliðskipan, metafrásagnarlegar athugasemdir, „við“-frásagnarorðræðu og heimildanotkun, sem segja má að í vissum skilningi séu eftirlíking, afhjúpun og paródía á því ferli sem búi að baki sagnfræðilegum ritum. Því er haldið fram að endurskoðun sögumanns Hundadaga á 18. og 19. öldinni eigi rætur að rekja til bankahrunsins 2008 á Íslandi þegar upplýsingargildin brugðust og leiddu til óreiðu og óvissu. Meira að segja hefur sögumaður fundið ókennileg líkindi milli fortíðarinnar og nútímans, eins og sagan hafi endurtekið sig. Í misgengi tímans birtist þá vofa sögunnar og með því að endurvitja fortíðarinnar nálgast sögumaður Hundadaga nútímann á allegórískan hátt. Sem sagnritunarsjálfsaga er skáldsagan Hundadagar þannig „mótsagnakennd, eindregið söguleg og óhjákvæmilega pólitísk“, rétt eins og póstmódernisminn sjálfur að viti Hutcheon.

Downloads

Download data is not yet available.

Author Biography

Xinyu Zhang

Meistaranemi í íslenskum bókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Útgefið
2019-10-24