Himnesk rödd en helvískur andi?

Um friðun álftar á Íslandi og nýlega árekstra álfta og kornbænda

  • Shauna Laurel Jones
  • Edda R.H. Waage
  • Karl Benediktsson
Efnisorð: Árekstrar manna og dýra, lífpólitík náttúruverndar, álftir, fuglafriðunarlög, kornrækt

Abstract

Þegar árekstrar koma upp í sambúð dýra og manna er nauðsynlegt að skoða vel þær forsendur sem að baki liggja. Í greininni er fjallað um þær deilur sem sprottið hafa upp á síðustu árum um alfriðun álftarinnar og tengjast aukinni kornrækt. Í upphafi er gerð stutt grein fyrir nýlegum nálgunum sem tengjast auknum áhuga á sambandi dýra og manna í hugvísindum. Í stað þess að skoða dýr sem óvirka þolendur eða jafnvel vélar, eins og algengt hefur verið um aldir, er nú lögð áhersla á gerendahæfni þeirra og gagnvirk tengsl við umhverfi sitt. Þau eru virkir þátttakendur í lífpólitík hvers tíma. Friðun tegunda er eitt birtingarform slíkrar lífpólitíkur, sem auk líffræðilegrar vitneskju snýst ævinlega um margvísleg gildi og hrif. Friðunarsaga álftarinnar er að því búnu rakin. Ýmsar fornar heimildir og lagaákvæði vitna um mikilvægi hennar sem nytjafugls á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Álftin hafði enn fremur margþætta menningarlega þýðingu í gegnum aldirnar. Þegar fyrsta almenna löggjöf um friðun fugla kom til sögu á nítjándu öld var þó ekki horft sérstaklega til álfta, enda fuglinn enn veiddur að einhverju marki. Nytja- og friðunarsjónarmið tókust á í rökræðum um álftina, sem var loks tekin í hóp alfriðaðra fugla árið 1913. Á síðustu áratugum tuttugustu aldar jókst kornrækt verulega í sveitum landsins. Jafnframt hefur álftum fjölgað og raddir hafa heyrst meðal bænda um að aflétta beri friðun fuglsins. Í rannsókn höfunda á Suðurlandi voru tekin eigindleg ítarviðtöl við níu kornbændur til að varpa skýrara ljósi á sambúð bænda og álfta. Reynsla þeirra og viðhorf voru með ýmsu móti. Flestir töldu álftir vera skynugar skepnur og viðurkenndu gerendahæfni þeirra. Hins vegar töldu þeir almennt ekki að fuglinn hefði sérstakt gildi sökum fegurðar. Flestir töldu að breyta þyrfti ákvæðum um alfriðun álfta. Ábyrgð á þeim árekstrum sem upp hafa komið var oftast varpað á fuglinn. Að rætur árekstranna mætti rekja til athafna þeirra sjálfra var almennt ekki ofarlega í huga bændanna. Í heild sýnir sagan af samskiptum manna og álfta vel hinar flóknu sögulegu rætur og menningarlegu forsendur sem vernd dýrategunda byggir jafnan á. Rannsóknir af þessu tagi, sem nýta kenningar og aðferðir umhverfishugvísinda, eru mikilvægar til að auka skilning á lífpólitík náttúruverndar.

Downloads

Download data is not yet available.

Author Biographies

Shauna Laurel Jones

Umhverfis- og auðlindafræðingur og listfræðingur.

Edda R.H. Waage

Lektor í landfræði og ferðamálafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild, Land- og ferðamálafræðistofu Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands.

Karl Benediktsson

Prófessor í landfræði við Líf- og umhverfisvísindadeild, Land- og ferðamálafræðistofu Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands.

Útgefið
2019-12-18