Um ást á öræfum
og áhrif hennar á umræðu um verndun miðhálendisins
Abstract
Viðfangsefni þessarar greinar er ást á öræfum í merkingunni hrifning af náttúru miðhálendis Íslands. Rýnt er í skrif tveggja náttúruunnenda á þeim nótum sem birtust með um hálfrar aldar millibili, þeirra Helga Valtýssonar og Guðmundar Páls Ólafssonar. Þeir fóru báðir í leiðangra inn á öræfi Íslands og lögðu sig í framhaldinu fram um að lýsa áhrifum þeirra á hugann og þýðingu öræfanna í því sambandi. Skrif þeirra beggja einkennast af persónulegu sjónarhorni en vitna um leið um áhrif frá þráðum í vestrænni náttúrusýn þar sem lögð er áhersla á gildi villtrar náttúru og mikilvægi þess að varðveita hana gegn breytingum af mannavöldum, ekki aðeins náttúrunnar vegna heldur einnig mannsins. Í seinni hluta greinarinnar er þetta viðfangsefni, ást á öræfum Íslands, tengt samtímanum með því að líta til þess hvernig sýn á hálendi á borð við þá sem þeir Helgi og Guðmundur Páll settu fram á sínum tíma hefur öðlast sess nú á dögum í umræðu um náttúruvernd á hálendinu, og þá ekki hvað síst í yfirstandandi umræðu um stofnun miðhálendisþjóðgarðs.