„allskonar nútímahelvíti“. Leikskáldið frá Laxnesi og harmabrestir Silfurtúnglsins

  • Björn Þór Vilhjálmsson
Efnisorð: Halldór Laxness, íslensk leikritun, melódrama, Bertolt Brecht, viðtökufræði

Abstract

Þegar um leikskáldið Halldór Laxness er rætt verður snemma ljóst að þar er á ferðinni höfundur sem er um margt frábrugðin þjóðskáldinu Halldóri. Þeir sem vinsamlegir voru leikhússtússi Halldórs bentu á að hann hafi kannski verið vont leikskáld en hafi þó alltaf verið að skána. Hinir síður vinsamlegu tóku öllu dýpra í árinni. Þótt ekki sé hægt að segja að leikritin liggi alfarið óbætt hjá garði er áhuginn á þeim takmarkaður meðal fræðimanna sem um Halldór skrifa. Nú er ekki ætlunin að hrekja viðhorf sem upp að ákveðnu marki eru orðin „viðtekin“, enda þótt tilraun(ir) til þess væru eflaust forvitnilegar. Að sama skapi er eðlilegt að skoðanir séu skiptar um gildi einstakra verka, og að menningarleg staða þeirra, sem og höfundarverksins í heild, taki breytingum í tímans rás, og þá í takt við þróun gildisviðmiða. Sérstaka athygli vekur þó gjáin áðurnefnda á milli þjóðskáldsins og leikskáldsins. Það er eins og um tvo ólíka höfunda sé að ræða. Í greininni er leitast við að kanna umfang þessarar klettasprungu í viðtökunum á höfundarverki Halldórs og um leið grafast fyrir um þann lærdóm sem draga má af henni, um bæði leikskáldið Halldór og íslenska leiklistarsögu. Hægt er að nálgast slíkt verkefni með ýmsum hætti, en hér verður sjónum beint að viðtökum eins leikrits, Silfurtúnglsins, og grennslast verður fyrir um forsendur þeirra, bæði menningarsögulegar og fagurfræðilegar. Þegar viðtökur Silfurtúnglsins eru skoðaðar verður það gert í samhengi við ákveðna textafræðilega stýriþætti og því haldið fram að orsakavirkni sé til staðar þar á milli. Stýriþættirnir sem einkum verður horft til eru annars vegar greinafræðilegir og hins vegar lúta þeir að textatengslum. Hvað greinafræðin varðar verður viðnám leikritsins sjálfs gegn ákveðnum grundvallar skilgreiningum og  flokkunarkerfum gaumgæft, og rök verða færð fyrir mikilvægi hins melódramatíska ímyndunarafls í ávarpi þess. Varðandi textatengslin og merkingarvirkni þeirra verður leikritinu stillt upp í samræðu við skáldskaparfræði Bertolts Brechts, og er það jafnframt liður í umræðunni um túlkun verksins, ávarp þess og merkingarmiðlun.

Downloads

Download data is not yet available.

Author Biography

Björn Þór Vilhjálmsson

Lektor í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Útgefið
2020-05-08