Ritið_Kápa_01_2020_ok.png

Í þessu hefti Ritsins eru vaktar upp aðkallandi spurningar er varða loftslagsbreytingar, fækkun dýrategunda, umhverfissiðfræði og sjálfbærni. Þeir þverfaglegu textar og listaverk sem birtast hér eiga það sameiginlegt að fela í sér nýstárleg sjónarhorn á viðfangsefni sem áður voru gegnsýrð hugmyndafræði mannmiðjunar. Tekin eru til gagnrýninnar umfjöllunar gamalgróin viðhorf um aðgreiningu manna og dýra og er efnið tímabært framlag til pósthúmanískrar umræðu á Íslandi. Höfundar takast hér á við flóknar sameiginlegar áskoranir og viðfangsefni sem blasa við nú á tímum mannaldar – þvert á landamæri og (dýra)tegundir. Þá er einnig fjallað um birtingarmyndir dýra í sjónrænu efni og framsetningu þeirra á söfnum og sýningum. Dýr í sínum margvíslegu myndum hafa löngum haft sterkt aðdráttarafl og heillað manninn frá upphafi vega. Þá hafa þau jafnframt valdið manneskjunni margvíslegum heilabrotum, sem vara enn um sinn, eins og dæmin í þessu hefti sýna glöggt.

Æsa Sigurjónsdóttir fjallar  um birtingarmyndir hvala í bæði sögu og samtíma í sinni grein og varpar ljósi á vaxandi umhverfissiðfræðileg viðhorf í sjónrænni framsetningu á hvölum þar sem greina má aukna samlíðan með dýrinu. Í grein Kötlu Kjartansdóttur og Kristins Schram er fjallað um lunda og hvítabirni í samhengi frásagna og efnismenningar og hvernig táknræn merking og birtingarmyndir þessara dýra hafa mótast, til dæmis í tengslum við vaxandi ferðamennsku og umhverfismál samtímans. Edda R. H. Waage og Karl Benediktsson ræða pólitísk áhrif æðarfuglsins, gerendahæfni (e. agency) hans og það mikilvæga hlutverk sem æðarfuglinn gegndi í þróun fuglaverndar á Ísland.

Gunnar Theodór Eggertsson fjallar um hvernig hugmyndin um „góðhestinn“ birtist í íslenskum dýrasögum og dregur fram duldar forsendur og merkingarauka sem fylgja framsetningu hesta (og annarra dýra) í slíkum sögum. Soffía Auður Birgisdóttir tekur fyrir gagnrýni Þórbergs Þórðarsonar á dýrafræði og útfærslu hans á því sem hann kallar „skemmtilega dýrafræði.“

Í óritrýndum greinum skrifa Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson um breytilegt ástand á norðurslóðum vegna hlýnunar jarðar, hækkunar sjávarmála sem afleiðingu af bráðnun jökla og þau áhrif sem þessar breytingar hafa á líf hvítabjarna á þessu svæði. Þá skrifar Katla Kjartansdóttir um íslenska dýrasafnið, gagnmerka sögu þess og samfélagslegt hlutverk. Margslunginn texti breska heimspekingsins Timothy Mortons, Efnisleiki, leikur, í þýðingu Oddnýjar Eirar Ævarsdóttur, vekur athygli á hinum þéttofnu þráðum sem víða liggja í samlífi mannskepna, dýra og annarra lífvera á tímum mannaldar.

Fyrri greinin sem hér birtist utan þema er eftir heimspekinginn Nönnu Hlín Halldórsdóttur. Í henni er spurningin „Tekurðu D-vítamín?“, sem langveikt fólk fær reglulega, skoðuð sem birtingarmynd einstaklingsvæðingar ábyrgðar í samfélögum sem eru mótuð af nýfrjálshyggju. Seinni greinin utan þema er eftir bókmennta- og kvikmyndafræðinginn Björn Þór Vilhjálmsson sem skrifar um Silfurtúnglið eftir Halldór Laxness. Hann rekur viðtökur leikverksins og ræðir í því samhengi um gjánna á milli þjóðskáldsins og leikskáldsins – sem gætu allt eins verið tveir ólíkir höfundar – er hann setur meðal annars í samhengi við tiltekna textafræðilega stýriþætti leikritsins og viðnám þess gegn vissum skilgreiningum og flokkunarkerfum.

Þemaritstjórar heftisins eru þau Katla Kjartansdóttir, doktorsnemi í safnafræði og Kristinn Schram, dósent í þjóðfræði en aðalritstjórar eru Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir. Forsíðuna prýðir verk eftir Edward Fuglø. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Lúther Jónsson um prófarkarlestur.

Útgefið: 2020-05-08