Stafrænt málsambýli íslensku og ensku
Áhrif ensks ílags og málnotkunar á málfærni íslenskra barna
Abstract
Undanfarin ár hefur umræða um áhrif aukinnar enskunotkunar hér á landi á íslenskufærni barna verið áberandi. Í þeirri umræðu hefur jafnvel verið gert ráð fyrir orsakasamhengi, þar sem aukin enska í málumhverfi barna er talin valda slakari færni þeirra í íslensku, án þess að niðurstöður rannsókna liggi þar að baki. Þessi umræða um hugsanlegar afleiðingar nánara málsambýlis íslensku við ensku, meðal annars í kjölfar snjalltækjavæðingar og fleiri tækninýjunga, voru hvatinn að rannsóknarverkefninu „Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis“ (http://molicodilaco.hi.is), sem hlaut öndvegisstyrk Rannsóknasjóðs Íslands á árunum 2016–2019. Í öndvegisverkefninu var meðal annars leitast við að setja umræðuna í fræðilegt samhengi og afla rannsóknargagna til þess að svara þeirri spurningu hvort alþjóðamálið enska, sem er ríkjandi mál í stafrænum miðlum, geti haft áhrif á máltöku móðurmáls eða fyrsta máls, þrátt fyrir að hið síðarnefnda sé aðalmál samfélagsins.
Slíkt málsambýli hefur lítið sem ekkert verið rannsakað út frá sjónarhóli máltöku fyrsta máls, en í fræðilegri umfjöllun í þessari grein er gerð grein fyrir niðurstöðum rannsókna á þremur ólíkum rannsóknarsviðum sem tengjast viðfangsefninu. Þá er fjallað um öndvegisverkefnið og gerð grein fyrir niðurstöðum barnahluta þess sem tók til 3–12 ára barna. Lögð er áhersla á ílag og málnotkun barnanna og samband þessara þátta við íslenska og enska málfærni þeirra, bæði orðaforða og málfræði. Þær niðurstöður sem fjallað er um í greininni byggja á svörum 724 barna og foreldra þeirra við viðamikilli netkönnun, sem send var til 1.500 barna (svarhlutfall 48%), og ítarlegri prófunum og viðtölum við 106 börn (og foreldra þeirra) sem tóku þátt í netkönnuninni. Niðurstöður tölfræðilegrar greiningar á gögnunum úr barnahluta öndvegisverkefnisins gefa ekki til kynna víðtæk áhrif ensks ílags og málnotkunar á íslenskufærni barnanna enn sem komið er, þótt marktæk tengsl komi fram á milli ensku í málumhverfinu og nokkurra mállegra breyta, til dæmis hefðbundinnar notkunar viðtengingarháttar í íslensku og meðallengdar segða í íslensku málsýnunum. Mælingar á magni hvors tungumáls í málumhverfi barnanna og málnotkunar þeirra leiða í ljós að mikil enskunotkun er ekki endilega alltaf á kostnað íslenskunnar, auk þess sem enskumagn og enskuáhugi barnanna tengist aukinni enskufærni þeirra. Almennt má segja að niðurstöður okkar bendi til að enskt ílag og málnotkun spái enn sem komið er að litlu leyti fyrir um íslenskufærni 3–12 ára barna en spái mun betur fyrir um enskufærni þeirra.