Ritið_Kápa_03_2021_0k.png

Frá því að vefurinn kom fram fyrir aldarfjórðungi hafa áhrif stafrænnar miðlunar á íslenskt samfélag margfaldast, ekki síst eftir að snjalltækjabyltingin hófst fyrir rúmum áratug. Verulegur hluti þjóðarinnar, einkum börn og yngra fólk, lifir nú og hrærist í stafrænum heimi netsins, streymisveitna, snjallsíma og tölvuleikja, þar sem enska er oft aðaltungumálið. Það fer varla hjá því að þetta mikla enskuáreiti hafi einhver áhrif á íslenskt mál og stöðu þess í samfélaginu. Þessar stórfelldu tæknibreytingar og umræða í samfélaginu um áhrif þeirra á íslenskuna voru hvatinn að öndvegisverkefninu „Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis“ sem gestaritstjórar þessa heftis, Sigríður Sigurjónsdóttir og Eiríkur Rögnvaldsson, stýrðu og styrkt var af Rannsóknasjóði á árunum 2016–2019. Þegar öndvegisverkefninu lauk kviknaði sú hugmynd að efna til greinasafns sem helgað væri áhrifum stafrænnar tækni og miðla á íslenskt mál og menningu enda hafa fleiri rannsóknir sem varða þetta efni verið gerðar á undanförnum árum.

Við þökkum öllum þeim sem hlýddu greinakalli okkar en velja varð úr innsendum greinum. Þemagreinar heftisins eru sjö talsins og fjalla um fjölbreytt efni þótt stafræn áhrif á íslensku sé sameiginlegt þema þeirra allra. Tvær fyrstu greinarnar eru unnar upp úr efni sem safnað var innan öndvegisverkefnisins „Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis“. Iris Edda Nowenstein og Sigríður Sigurjónsdóttir gera grein fyrir niðurstöðum tölfræðilegrar greiningar á áhrifum ensks ílags og málnotkunar á íslenskan og enskan orðaforða og málfræðikunnáttu þeirra 3–12 ára íslensku barna sem svöruðu netkönnunum verkefnisins og komu í viðtöl og ítarlegri prófanir. Hildur Hafsteinsdóttir, Sigríður Sigurjónsdóttir og Þorbjörg Þorvaldsdóttir fjalla um áhrif ensks ílags og málnotkunar á íslenskan hreim í enskuframburði 14–83 ára Íslendinga, sem tóku þátt í viðtalshluta öndvegisverkefnsins, og hvort sjá megi einhver tengsl í niðurstöðum við aldur fólks og viðhorf þess til enskunotkunar. Næstu tvær greinar eru unnar upp úr efni sem safnað var innan rannsóknarverkefnisins „Íslenskt unglingamál. Rannsókn á samskiptaaðferðum í raungögnum“, sem styrkt var af Rannsóknasjóði og Helga Hilmisdóttir stýrði á árunum 2018–2021. Helga Hilmisdóttir segir frá rannsókn á enskum framandorðum í samtölum tveggja fimmtán ára grunnskóladrengja sem eru að spila tölvuleikinn Grand Theft Auto. Ragnheiður Jónsdóttir og Helga Hilmisdóttir gera grein fyrir áhrifum stafrænnar tækni á á rithátt unglinga á slanguryrðum en rannsóknin byggist á vefkönnun þar sem unglingar voru beðnir að nefna slanguryrði yfir tiltekin hugtök og búa til dæmi um notkun þeirra. Síðustu þrjár greinarnar eru ekki afurðir stórra rannsóknarverkefna en tengjast þó ýmsum viðfangsefnum höfunda sinna. Ásgrímur Angantýsson og Finnur Friðriksson fjalla um íslensk-ensk málvíxl framhaldsskólanema á samfélagsmiðlunum Facebook og Messenger, þ.e. þegar ensk orð, orðasambönd, setningar og jafnvel lengri segðir eru notaðar inni í texta sem annars er á íslensku. Agnes Sólmundsdóttir, Dagbjört Guðmundsdóttir, Lilja Björk Stefánsdóttir og Anton Karl Ingason leiða í ljós kynjahalla í íslenskum þýðingum Google Translate en þau könnuðu í hvaða kyn þýðingarforritið setur íslensk lýsingarorð þegar það þýðir setningar þar sem lýsingarorð á við fyrstu persónu fornafn úr ensku þar sem lýsingarorð beygjast ekki í kynjum. Loks leitast Ari Páll Kristinsson við að varpa nýju ljósi á meginþræði íslenskrar málstefnu út frá þeirri kenningu Bernards Spolsky að málstefna hvíli á þremur meginþáttum, málhegðun, málviðhorfum og málstýringu, og tengir tvo fyrri þættina niðurstöðum úr öndvegisverkefninu „Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis“.

Ein grein birtist utan þema að þessu sinni, „Ótti sem rennur úr jörðinni. Þar fjallar Sigrún Margrét Guðmundsdóttir um virkni reimleikahússins í Hálendinu eftir Steinar Braga, sem er ekki bundið eiginlegu húsi heldur fremur fólgin í landslaginu. Þannig fylgir höfundurinn hefð norrænna gotneskra sagna þar sem myrkar og óvægnar óbyggðirnar birta það sem innra með sögupersónum hrærist.

Gestaritstjórar heftisins eru Eiríkur Rögnvaldsson og Sigríður Sigurjónsdóttir en aðalritstjórar þess eru Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Dagbjört Guðmundsdóttir og Sigurrós Eiðsdóttir um prófarkarlestur.

Útgefið: 2022-01-18