Íslenskur hreimur í málsambýli

Áhrif ílags, aldurs og viðhorfa á enskuframburð Íslendinga

  • Hildur Hafsteinsdóttir
  • Sigríður Sigurjónsdóttir
  • Þorbjörg Þorvaldsdóttir
Efnisorð: Málsambýli, íslenskur hreimur, enskuframburður, ílag og málnotkun, viðhorf

Abstract

Öndvegisverkefnið „Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis“ hafði það að markmiði að rannsaka áhrif aukinnar enskunotkunar á Íslandi á íslenska tungu. Þessi grein er unnin sem hluti af rannsókninni í þeim tilgangi að kanna áhrif málsambýlis íslensku og ensku á enskuframburð Íslendinga. Lagt var upp með að kanna hvort íslenskur hreimur í enskuframburði þátttakenda sýndi tengsl við ílag og enska málnotkun þeirra, aldur og viðhorf. Í þessari grein er fjallað um nokkur einkenni íslensks hreims sem geta komið fram þegar Íslendingar tala ensku, en það eru aðblástur, afröddun hjómenda, áhersla á fyrsta atkvæði orðs auk framburðar /v/ og /w/ í ensku. Þessi framburðareinkenni voru höfð að leiðarljósi í athugun sem var gerð á enskuframburði 57 Íslendinga á aldrinum 14–83 ára þar sem leitað var eftir tíðni þessara einkenna í upplestri þátttakenda á setningum á ensku og niðurstöðurnar bornar saman við aldur þeirra og upplýsingar um enskuílag, enska málnotkun og viðhorf þeirra til virkrar enskunotkunar. Niðurstöður eru á þá leið að ekki fundust tengsl við aldur en greinilegt er að hlutfall íslensks hreims er lægra eftir því sem hlutfall ensku í heildarílagi (málumhverfi og málnotkun) þátttakenda er hærra. Þá koma fram vísbendingar um að virk málnotkun (tal og skrif) hafi meiri áhrif á hlutfall íslensks hreims heldur en óvirkt ílag (hlustun og lestur). Einnig mælist minni íslenskur hreimur hjá þeim sem hafa gaman af því að eiga í samræðum á ensku. Þar sem niðurstöður fyrri athugana innan verkefnisins hafa bent til þess að yngra fólk sé jákvæðara gagnvart aukinni virkri enskunotkun en eldra fólk má velta því fyrir sér hvort þær breytingar verði í náinni framtíð að það dragi úr íslenskum hreim í enskuframburði Íslendinga.

Downloads

Download data is not yet available.

Author Biographies

Hildur Hafsteinsdóttir

MA í íslenskri málfræði

Sigríður Sigurjónsdóttir

Prófessor í íslenskri málfræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir

MA í málvísindum

Útgefið
2022-01-17