„Þá leyfir maður sér liggur við að hlaupa tungumálanna á milli“

Íslensk-ensk málvíxl framhaldsskólanema á samfélagsmiðlum

  • Finnur Friðriksson
  • Ásgrímur Angantýsson
Efnisorð: málvíxl, rafræn samskipti, samfélagsmiðlar, unglingamál, samskiptahlutverk málvíxla

Abstract

Í greininni er fjallað um sambýli íslensku og ensku eins og það birtist í málnotkun 92 framhaldsskólanema á samfélagsmiðlinum Facebook. Byggt er á greiningu á hlutverki málvíxla í stöðuuppfærslum (5.983 orð), athugasemdum (4.084 orð) og einkasamtölum (17.408 orð), það er að segja þegar gripið er til orða, orðasambanda, setninga og jafnvel lengri segða á ensku þar sem íslenska er annars grunnmálið, en slík víxl eru gjarnan talin vera eitt helsta einkenni unglingamáls. Í ljósi umræðu um vaxandi enskunotkun á tímum alþjóðavæðingar og örra tæknibreytinga, auk þess sem málvíxl eru talin eitt megineinkenna unglingamáls, kemur ef til vill á óvart að hlutfall ensku er einungis 3,02% af heildarorðaforðanum í gögnum okkar (831 orð af 27.475). Almennt eru málvíxl algengari í einkaspjalli en á sýnilegum vettvangi, það er í stöðuuppfærslum og athugasemdum, eins og við mátti búast, en meðaltölin segja þó ekki alla söguna. Hlutfall ensku sveiflast til að mynda frá 0,16% í samtali um skólaverkefni upp í 30,47% í ærslafullu spjalli um næturlíf, tónlist og myndbönd á Youtube. Þó er ekkert í gögnum okkar sem bendir til tvítyngdra málaðstæðna þar sem enska er notuð sem grunnmál samhliða íslensku. Meðal þess sem rannsókn okkar leiðir í ljós er að ungmennin nota ensku helst þegar þau virðist vanta orð á íslensku, í upphrópunum, til áhersluauka, í leikrænum tilgangi og til að styrkja tengsl sín á milli. Þessar niðurstöður eru í samræmi við það sem sambærilegar erlendar rannsóknir hafa leitt í ljós. Auk þess kemur enska gjarnan við sögu í þeim textum sem birtir eru með myndum í stöðuuppfærslum. Það sem síðan ræður mestu um hvort málvíxlum er beitt eru annars vegar málaðstæðurnar og hins vegar umræðuefnið. Á samtalsþráðunum er almennt meiri tilhneiging til að skipta yfir í ensku en það fer þó mjög mikið eftir umræðuefninu. Þegar rætt er um efni á borð við skóla eða almennar frístundir heyrir til undantekninga að gripið sé til ensku en þegar talið berst að tölvuleikjum, sjónvarpsþáttum og tilteknum sérhæfðum viðfangsefnum eru málvíxl býsna áberandi.

Downloads

Download data is not yet available.

Author Biographies

Finnur Friðriksson

Dósent í íslensku við Kennaradeild Háskólans á Akureyri.

Ásgrímur Angantýsson

Prófessor í íslensku nútímamáli við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Útgefið
2022-01-17