Faraldurinn í farangrinum

Íslenskar faraldurslýsingar á árnýöld

  • Katelin Marit Parsons
Efnisorð: Faraldrar á Íslandi á árnýöld, bólusótt, annálar síðari alda, míasma-kenningin, menningarleg og félagsleg áhrif smitsjúkdóma

Abstract

Drepsótt birtist sjaldan í skrifum sem hlutlaust fyrirbæri. Smit er gjarnan sett fram sem refsing einstaklings eða samfélags fyrir óæskilega hegðun og gildir einu hvort um sé að ræða nútímafaraldra á borð við alnæmi eða plágur fyrri alda. Faraldurinn sem gengur aftur og aftur skapar hins vegar djúpstæð samfélagsleg og menningarleg áhrif til lengri tíma. Dauðadansinn og óhugnanlegar áminningar um dauðans óvissa tíma skutu upp kolli í listum og bókmenntum eftir að plágan festi sig í sessi sem endurtekningarstef í evrópskum samfélögum.  

Kýlapestin gekk tvisvar yfir á Íslandi á 15. öld með hörmulegum afleiðingum fyrir samfélagið en langtímaáhrif plágunnar á íslenska menningu voru ekki eins afgerandi og í mörgum öðrum samfélögum í Norður-Evrópu. Eins og margir aðrir smitsjúkdómar varð kýlapestin aldrei landlæg hérlendis og aðgerðir yfirvalda í erlendum hafnarborgum dugðu til þess að koma í veg fyrir að kýlapestin bærist til Íslands á 16., 17. og 18. öld. Í greininni eru færð rök fyrir því að bólusóttin hafi orðið að menningarlegu ígildi kýlapestarinnar hérlendis. Sjúkdómurinn barst hingað öðru hvoru á árnýöld en náði ekki fótfestu frekur en kýlapestin. Víðast hvar í Evrópu hafði bólusótt orðið að stórhættulegum en algengum barnasjúkdómi sem varð tiltölulega fáum fullorðnum einstaklingum að aldurstila. Óregluleg koma bólusóttarinnar til Íslands boðaði aftur á móti skæða faraldra sem gengu hratt yfir en skildu þúsundir eftir í valnum. 

Míasma-kenningin hafði mikil áhrif á faraldurslýsingar í íslenskum annálum síðari alda.  Samkvæmt míasma-kenningunni barst smit í formi sóttkveikju sem átti upptök sín í mengun sem  dreifðist út í loftinu. Plágan tekur á sig fuglsham í Biskupaannálum Jóns Egilssonar en í öðrum annálum birtist míasma í sambærilegri mynd og í faraldurslýsingum frá meginlandi Evrópu: hættulegar og bráðsmitandi eiturgufur sem skynja má með áþreifanlegum hætti. Faraldurinn kemur þó alltaf að utan og áberandi er í annálum að sóttkveikjan berst undantekningarlaust frá útlöndum en ekki úr hérlendri stækju. Krafan um að einangra kerfisbundið smitaða eða útsetta einstaklinga frá heilbrigðum í faröldrum finnst aftur á móti ekki í íslenskum heimildum frá þessum tíma. Svo virðist sem litið hafi verið á dreifingu aðkomusóttkveikjunnar sem óhjákvæmilega og að fátt gæti stöðvað gang faraldra eftir að sýktur farangur eða einstaklingur kom í land. 

Downloads

Download data is not yet available.

Author Biography

Katelin Marit Parsons

Nýdoktor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Útgefið
2022-06-30