Ritið_Kápa_01_2022_0k.png

Covid-19 faraldurinn hefur verið fólki hugleikinn síðastliðin misseri og af því ræðst þema Ritsins 1/2022, sem er plágan. Greinahöfundar heftisins eiga það sameiginlegt að beina sjónum sínum að því hvernig plágur birtast í textum frá ólíkum tímum. Þemagreinarnar eru fimm talsins en innan þemans birtast einnig skáldaðir textar eftir Steinunni Sigurðardóttur, Önu Mjallhvíti Drekadóttur, Gyrði Elíasson, Þórdísi Helgadóttur og þýðing Steinunnar Sigurðardóttur á ljóði eftir Adam Zagajewski. Auk þess prýðir heftið ljósamyndaþáttur úr smiðju Kristins Ingvarssonar sem fangar vel íslenskt samfélag á tímum kórónuveirunnar.

Í greininni „Bókmenntir í blárri móðu“ fjallar Aðalheiður Guðmundsdóttir um veikar söguhetjur eins og þær koma fyrir sjónir í fornaldarsögum og riddarasögum. Hún fjallar sérstaklega um Ála flekks sögu sem hún greinir út frá veikindum Ála, aðalpersónu sögunnar, og leitast við að tengja hana veruleika fólks á 15. öld og þá sér í lagi svartadauða eða plágunni miklu sem geisaði tvívegis hér á landi á þeim tíma. Katelin Marit Parsons fjallar um íslenskar faraldurslýsingar á árnýöld. Í greininni segir hún frá því að kýlapestin hafi gengið tvisvar yfir á Íslandi á 15. öld með hörmulegum afleiðingum fyrir samfélagið þótt langtímaáhrif plágunnar á íslenska menningu hafi ekki verið eins afgerandi og í mörgum öðrum samfélögum í Norður-Evrópu.

Alda Björk Valdimarsdóttir skrifar um skáldsöguna Howards End (1910) eftir breska rithöfundinn E.M. Forster og sýnir fram á hvernig sagan setur fram lausn sem felst í jafnrétti og kvenlegri stýringu andspænis ofríki mannsins gegn heiminum og forræðishyggju, þar sem einvörðungu er tekið og engu skilað til baka. Þannig dregur Alda Björk fram hvernig sagan á vel við á tímum loftslagsbreytinga. Dauðinn gegnir lykilhlutverki í heimspeki Alberts Camus en í skrifum sínum leitast Jón Bragi Pálsson við að draga saman umfjöllun hans um dauðann í nokkrum lykilverkum rithöfundarins, einkum skáldsögunnar Plágunnar, til að varpa ljósi á ákveðna heildarkenningu sem býr þar að baki. Atli Antonsson bendir á að háa tíðni náttúruhamfara í íslenskum samtímabókmenntum megi túlka sem menningarlegt uppgjör við Hrunið og tengda atburði. Hann spáir því að á áratugnum sem nú er genginn í garð muni skáldskapur sem tengist úrvinnslu kórónuveirufaraldursins velta eldgosum úr sessi sem algengustu náttúruhamfarirnar í íslenskum skáldsögum.

Tvær greinar birtast utan þema að þessu sinni. Sigrún Margrét Guðmundsdóttir skrifar greinina „Fíklar í bata“ þar sem hún fjallar um upphafsár íslenska raunveruleikasjónvarpsins, sem kalla mætti gullaldarár þess, frá 2000–2006, og Svavar Hrafn Svavarsson fjallar um túlkun arftaka Platons, sem voru efahyggjumenn, á heimspeki hans, í greininni „Arfur Platons“.

Ritstjórar heftisins eru Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Dagbjört Guðmundsdóttir um prófarkalestur. Málverkið á kápu Ritsins er eftir Egil Eðvarðsson og nefnist Plágan.

Útgefið: 2022-07-01