„Hún er húsið og tréð sem slútir yfir það.“ Howards End, móðurgyðjan og karllægt vistþrot
Abstract
Howards End eftir breska rithöfundinn E.M. Forster er skáldsaga sem segir frá leitinni að heimili. Saga Forsters talar jafnvel enn frekar til lesenda tuttugustu og fyrstu aldarinnar, á tímum loftslagsbreytinga, en hún gerði fyrir rúmum hundrað árum. Í sögunni dregur höfundurinn fram andstæð sjónarmið þeirra sem sýna lögmáli náttúrunnar virðingu og svo hinna sem eru fulltrúar vélvæðingar, tæknibyltingar og heimsvaldastefnu. Sagan leggur mikla áherslu á mikilvægi heimilisins, að það sé himneskur staður sem þú nálgast af virðingu og væntumþykju og kunnir að meta. Slíkur draumastaður er húsið Howards End, og vegna tengslanna við náttúruna og móðurina í verkinu verður staðurinn að táknmynd fyrir heimili mannkynsins, jörðina sjálfa, auðlindir okkar og það sem við skilum til barna okkar. Howards End, sem sagan dregur nafn sitt af, virðist búa við sitt eigið lífkerfi og hringrás, rétt eins og grunnöfl náttúrunnar. Í verki Forsters er lögð áhersla á það mikilvæga hlutverk að vernda verðmæti og skila þeim ósködduðum til næstu kynslóðar, hvort sem það er fortíðin, menningin eða náttúran.