Fjórir kaupmenn og klæðskiptingur

Um tilurð og áhrif almúgabókar

  • Aðalheiður Guðmundsdóttir
Efnisorð: Saga af fjórum kaupmönnum, almúgabækur, þýðingar, íslenskar bókmenntir, kynjahlutverk

Abstract

Í greininni er fjallað um Sögu af fjórum kaupmönnum sem heyrir til svonefndra almúgabóka og var þýdd yfir á íslensku á 17. öld. Sagan fjallar um kaupmenn sem veðja um trúlyndi eiginkonu eins þeirra. Söguefnið um kaupmennina og konuna, sem reynist vera saklaus, er útbreitt um Evrópu og kemur meðal annars fyrir hjá Giovanni Boccaccio sem nýtti sér það í Decameron, og hjá William Shakespeare sem studdist við það í verki sínu The Tragedie of Cymbeline. Í umfjölluninni er söguefnið skoðað í víðu samhengi og í upphafi er athyglinni beint að þróun þess í Evrópu. Eftir það er fjallað um íslensku þýðinguna sérstaklega og varðveislu hennar. Að lokum er sagan greind með áherslu á þema hennar og boðskap og leitast er við að draga fram og varpa ljósi á hugmyndir um stöðu kvenna fyrr á öldum. Einkum og sér í lagi er þó spurt hvaða erindi sagan gæti hafa átt til íslenskra áheyrenda á 17. öld og þann tíma sem hún naut vinsælda og hvernig lesendur hennar og áheyrendur gætu hafa lesið í og túlkað þau gildi sem þar eru dregin fram.

Downloads

Download data is not yet available.

Author Biography

Aðalheiður Guðmundsdóttir

Prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Útgefið
2023-09-20