Nokkrir þankar um eiginkonu guðs
Um samspil ímyndunar og veruleika í þremur sögum eftir Kristínu Ómarsdóttur
Abstract
Rithöfundurinn Kristín Ómarsdóttir er þekkt fyrir að leika sér með mörk ímyndunar og veruleika í skáldskap sínum. Gott dæmi um það er bókin Einu sinni sögur sem hún sendi frá sér árið 1991. Bókin er safn stuttra texta en þar birtust meðal annars smásögurnar „Eiginkona guðs“, „Hvíldardagur“ og „Vegakort“ sem mynda eins konar sagnasveig en þær fjalla um hjónaband og hversdagslegt líf guðs og eiginkonu hans. Í greininni er fjallað um sögurnar með hliðsjón af kenningum um ónáttúrulegar frásagnir, ímyndunaraflið og femínisma og skoðað hvaða aðferðum Kristín beitir til að fylla inn í eyður Biblíunnar og hvernig hún leikur sér að þekktum sögum og blandar saman skáldskap og veruleika til að varpa ljósi á ýmsa þætti sköpunarsögunnar og ólíka stöðu kynjanna.