„Af barni Maður borinn er“
Um barnæskuna sem þroskahugsjón
Abstract
Greinin fjallar um merkingu þess að verða „eins og barn“ eða verða „barn í annað sinn“ í samhengi við hugmyndir um mannlegan þroska. Rætt er um þrjú þemu sem hafa annars vegar verið tengd barnæskunni og hins vegar því að fullorðnast, það er verða fullþroskuð manneskja. Þemun eru auðmýkt, undrun og leikur. Sem dygð hefur auðmýkt verið álitin ein höfuðprýði andlegs og siðferðilegs þroska, en jafnframt verið tengd börnum sérstaklega, bæði í ljósi eiginleika þeirra og stöðu í tilverunni. Rætt er hvernig auðmýkt sem hið barnslega sjónarhorn manneskjunnar á heiminn hefur djúpa þýðingu fyrir skynbragð hennar á gildi og mikilvægi hlutanna. Undrun er önnur siðferðileg dygð sem tengd hefur verið ferskri upplifun barnsins af veröldinni og hinu óvænta sem það sér hvarvetna. Hún birtist einnig í unun barnsins af einfaldri skynjun skynfæranna, auga þess fyrir staðreyndum lífheimsins og fyrir sjálfri tilvistinni. Í greininni er staldrað sérstaklega við hið síðasttalda, það er við þýðingu hins barnslega einfalda innsæis í undur tilvistarinnar fyrir þroskaðan og vakandi skilning á lífinu. Leikurinn er nálgun barna á tilveruna en ýmsir hugsuðir hafa einnig tengt hann við ýtrasta þroska manneskjunnar. Í þessu sambandi er sérstaklega rætt um náin tengsl leiksins við mannlegt frelsi og frjálsa virkni á borð við hugleiðingu og helgisiði, sem sumir heimspekingar hafa álitið að sé það besta sem mannlífið hefur upp á að bjóða. Undir lok greinarinnar er vikið að vísbendingum um að ýmislegt í þróun nútímasamfélags grafi undan barnæskunni, í samhengi þeirra þriggja þema sem rædd eru í greininni.